Erlent

Gætu þurft að hætta rann­sókn ef fleiri vís­bendingar berast ekki

Sylvía Hall skrifar
Saksóknarar segjast hafa nægilega sterk sönnunargögn til þess að fullyrða að Madeleine sé látin en ekki nóg til þess að ákæra hinn 43 ára gamla Christian Brückner.
Saksóknarar segjast hafa nægilega sterk sönnunargögn til þess að fullyrða að Madeleine sé látin en ekki nóg til þess að ákæra hinn 43 ára gamla Christian Brückner. AP/GETTY

Rannsakendur í Þýskalandi segjast búa yfir verulegum sönnunargögnum sem benda til þess að Madeleine McCann sé látin. Saksóknarar gætu þó neyðst til þess að hætta rannsókn ef almenningur býr ekki yfir frekari upplýsingum um hvarf hennar.

Þetta kemur fram á vef BBC þar sem er haft eftir þeim sem fara með rannsókn málsins að sönnunargögnin séu sannfærandi en ekki nóg til þess að höfða mál gegn hinum grunaða Christian Brückner. Brükcner er 43 ára þýskur fangi og hefur meðal annars hlotið dóma fyrir kynferðisbrot gegn börnum.

Hann afplánar nú sjö ára fangelsisdóm í Þýskalandi fyrir fíkniefnasölu en hann hafði einnig verið dæmdur fyrir nauðgun á bandarískri konu á Algarve í Portúgal þar sem fjölskylda Madeleine dvaldi þegar hún hvarf frá hótelherbergi sínu. Nauðgunin átti sér stað árið 2005.

Í samtali við BBC segir Hans Christian Wolters, saksóknari í Braunschweig, að sönnunargögnin sem eru til staðar bendi til þess að hann hafi myrt Madeleine. Þó þau séu ekki nægilega sterk til þess að fara með þau fyrir dómstóla séu þau nægilega sannfærandi til þess að fullyrða að hún sé látin og að hann beri ábyrgð á því.

„Maður þarf að vera hreinskilinn og vera tilbúinn að horfast í augu við það að rannsókn okkar gæti endað án þess að ákært verði í málinu, og að það endi líkt og önnur hafa,“ sagði Wolters sem kveðst þó vera bjartsýnn á að svo verði ekki.

„Við erum bjartsýn á að það verði öðruvísi núna en svo það verði þurfum við frekari upplýsingar.“

Samhliða rannsókn á hvarfi Madeleine hefur lögreglan í Þýskalandi hefur tekið hvarf drengsins René Hasee, sem hvarf sporlaust í Portúgal árið 1996, aftur til rannsóknar. Telja þau mögulegt að sami maður beri ábyrgð á hvarfi drengsins.

Þá er hann einnig talinn geta tengst hvarfi hinnar fimm ára gömlu Ingu Gehrike sem hvarf árið 2015 í Þýskalandi. Stúlkan hvarf úr grillveislu fjölskyldu sinnar í Saxlandi-Anhalt og talið er að hún hafi týnst eftir að hafa haldið inn í skóg í leit að eldivið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×