Fótbolti

Nefnir Ólaf sem einn fjögurra sem gætu tekið við Esbjerg

Sindri Sverrisson skrifar
Ólafur Kristjánsson er að hefja nýtt tímabil sem þjálfari FH.
Ólafur Kristjánsson er að hefja nýtt tímabil sem þjálfari FH. vísir/daníel

Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, gæti komið til greina sem nýr þjálfari danska úrvalsdeildarfélagsins Esbjerg sem hefur verið mikið í því að skipta um þjálfara á síðustu árum.

Þetta er mat Flemming Toft, sparkspekings hjá TV 2 Sport, sem nefnir fjóra þjálfara sem tekið gætu við af Lars Olsen sem er hættur eftir aðeins átta mánuði í starfi. Ólafur var í haust sagður hafa hafnað þjálfarastöðunni hjá Esbjerg, áður en Olsen var ráðinn.

„Annar sem þekktur er á þessum slóðum er Íslendingurinn Ólafur Kristjánsson sem þjálfað hefur Randers og FC Nordsjælland og var inni í myndinni áður en Lars Olsen kom. En hann fer varla frá Íslandi,“ sagði Toft, sem telur líklegra að Claus Nörgaard eða Lars Sörensen, sem starfa nú þegar hjá Esbjerg, taki við starfinu.

Toft bendir réttilega á að starfsöryggið virðist ekki mikið hjá Esbjerg: „Tíu þjálfarar á tíu árum, þar af sjö á síðustu fimm árum. Þetta er einfaldlega bilun. Og kannski einsdæmi í dönskum fótbolta. Það er eitthvað virkilega galið í gangi í Esbjerg.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×