CrossFit heimurinn hefur verið á öðrum endanum eftir rasísk orð framkvæmdastjórans og stofnandans Greg Glassman of það dugar líklega skammt að hann hafi sent frá sér afsökunarbeiðni vegna ummælanna sem hann átti um George Floyd.
Institute for Health Metrics and Evaluation var þar að lýsa því yfir að rasismi væri sannkallað heilbrigðisvandamál í Bandaríkjunum í kjölfar mótmælanna í bandarísku þjóðfélagi í framhaldi þess að blökkumaðurinn George Floyd lést eftir hræðilega meðferð hjá hvítum lögreglumönnum.
„Það er FLOYD-19,“ skrifaði Greg Glassman með vísun í kórónuveiruna COVID-19. Það féll skiljanlega í grýttan jarðveg og var í raun algjör sprengja innan CrossFit samfélagsins.
Reebok hefur ákveðið að hætta samstarfi sínu við CrossFit eftir að samningurinn rennur út í árslok og fullt af CrossFit stjörnum sér ekki fram á það að taka þátt í mótum á vegum CrossFit samtakanna verði ekki gerðar breytingar á forystunni.
Tia-Clair Toomey tjáir sig á þeim nótum og hefur óbeint hótað því að keppa ekki aftur á vegum CrossFit samtakanna eins og sést hér fyrir neðan.
„Ég vil byrja á því að segja að ég varð fyrir ótrúlega miklum vonbrigðum og er gríðarlega leið og pirruð yfir orðum og hegðun höfuðstöðva CrossFit samtakanna og þá sérstaklega því sem kom frá Greg Glassman,“ byrjaði Tia-Clair Toomey pistil sinn.
„Ég vil biðja alla innilegar afsökunar frá mínum hjartarótum og þá alla þá sem hafa orðið vitni af þessari vanþekkingu og hafa fundið fyrir þeim sársauka sem hún veldur. Skortur á viðurkenningu og samúð með þeim sem eru að berjast fyrir lágmarks mannréttindum er hreinlega óafsakanlegt. Þetta er hegðun sem ég mun ekki líða,“ skrifaði Tia-Clair.
„Ég og Shane skömmumst okkar ótrúlega mikið fyrir þetta sem og að vera hluti af þessum samtökum sem við höfum gefið svo mikið af okkur til,“ skrifaði Tia-Clair Toomey meðal annars.
Hún segir að þetta sé miklu stærra mál en íþróttirnar og hún ætlar ekki að tengjast CrossFit samtökunum með óbreyttum stjórnarháttum.
„Framtíð mín í CrossFit er óljós og fer eftir því hvaða stefnu höfuðstöðvar CrossFit íþróttarinnar taka,“ skrifaði Toomey. Hún lofar því að berjast gegn öllu misrétti hvort sem það er ill meðferð, hatur eða rasismi.
Tia-Clair Toomey endaði tveggja ára sigurgöngu Katrínar Tönju Davíðsdóttur á heimsleikunum árið 2017 og hefur unnið alla heimsmeistaratitlana síðan.
Hún endaði líka sigurgöngu Söru Sigmundsdóttur á núverandi tímabili þegar hún hafði betur á Wodapalooza CrossFit-mótinu í Miami í febrúar.
Hér fyrir neðan má sjá allan pistil Tiu-Clair Toomey