Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir fjölda ferðaskrifstofa fara á hausinn að óbreyttu þar sem þær ráði ekki við endurgreiðslur til viðskiptavina samhliða algjöru tekjuhruni. Frumvarp ferðamálaráðherra um greiðslur með inneignum er dautt á Alþingi.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Evrópuþingið hafa úrskurðað að ferðaskrifstofum sé óheimilt að endurgreiða viðskiptavinum sínum greiðslur fyrir ferðir sem ekki voru farnar vegna kórónuveirufaraldursins með inneignarnótum. Réttur viðskiptavina til endurgreiðslu sé skýr.
Þetta var einmitt leiðin sem íslensk stjórnvöld hugðust fara í frumvarpi Þórdísar Kolbrúnar Gylfadóttur ferðamálaráðherra. Frumvarpið mætti strax mikilli andstöðu fjölmargra aðila eins og Neytendasamtakanna og ljóst að það hafði heldur ekki pólitískan stuðning og hefur umræðum um það verið hætt á Alþingi.

Jóhannes Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir ferðaskrifstofur hafa búið við mikla óvissu undanfarnar vikur. Þær eigi fjármuni inni hjá hótelum og öðrum viðskiptaaðilum sem ekki hafi fengist endurgreiddir og sjálfar orðið fyrir algeru tekjuhruni.
„Það þýðir að þær hrekjast þá alltaf lengra í áttina að gjaldþroti eða rekstrarstöðvun. Við náttúrlega vonumst til að það finnist á þessu einhver lausn. En hún er kannski ekki í sjónmáli eins og stendur,“ segir Jóhannes.
Rúmlega þrjúhundruð ferðaskrifstofur eru í landinu sem selja bæði ferðir hingað til lands og til annarra landa. Jóhannes segir margar þeirra ekki eiga neinna kosta völ vegna gífurlegs lausafjárvanda. Þær eigi ekki öfluga bakhjarla til að koma inn með nýtt hlutafé og stefni því að óbreyttu í gjaldþrot.
„Það kemur neytendum ekki sérstaklega til góða vegna þess að þá tekur tryggingakerfi ferðaskrifstofanna við. Það er að lang mestu leyti í lagi . En það þýðir hins vegar að fólk þarf að bíða eftir peningunum sínum,“ segir Jóhannes. Í einhverjum tilvikum muni tryggingar ferðaskrifstofa ekki duga til.

Ferðaskrifstofan Vita er ein þriggja stærstu ferðaskrifstofa landsins og nýtur þess að hafa eiganda sinn Icelandair að bakhjarli sem fengið hefur milljarða stuðning frá stjórnvöldum í gegnum hlutabótaleiðina og greiðslu launa á uppsagnarfresti. Vita segist hafa endurgreitt öllum sem þess hafi óskað en hefur augljóslega sterkari stöðu en hinar stóru ferðaskrifstofurnar.
„Það þarf að finna lausn á þessu ef mögulegt er sem getur komið til móts við vanda ferðaskrifstofanna og til móts við þarfir neytenda. Það er ekki augljóst að hægt sé að finna lausn sem gerir það á fullkominn máta fyrir báð aðila,“ segir Jóhannes Skúlason.