Innlent

Samfelld göngugata frá Lækjargötu til Frakkastígs í sumar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hlaupahjólin hafa verið áberandi í miðbænum í maí og verða það eflaust áfram í sumar.
Hlaupahjólin hafa verið áberandi í miðbænum í maí og verða það eflaust áfram í sumar. Vísir/Vilhelm

Skipulags- og samgönguráð samþykkti í dag að að bæta við tímabundnum göngugötum frá 5. júní til 1. október 2020. Um er að ræða Laugaveg milli Frakkastígs og Klapparstígs, Vatnsstíg milli Laugavegar og Hverfisgötu og Bankastræti milli Ingólfsstrætis og Lækjargötu.

Sumargöngugötur eru útvíkkun á þeim varanlegu göngugötusvæðum sem nú hafa verið staðfest í deiliskipulagi og fjallað var um á Vísi í dag. Þær götur sem nú eru varanlegar göngugötur eru Laugavegur frá Klapparstíg að Þingholtsstræti, Skólavörðustígur milli Bergstaðastrætis og Laugavegar og Vegamótastígur frá Laugavegi að Grettisgötu.

Vörulosun verður heimil með sama hætti á tímabundnu göngugötunum eins og á varanlegum göngugötum. Aðgengi íbúa og starfsemi með bílastæði inni á lóð við göturnar verður tryggt að því er segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. 

Almenn umferð og bifreiðastöður verða óheimilar. Akstur vegna vöruafgreiðslu verði heimilaður frá klukkan 7 til 11 virka daga og frá klukkan 8 til 11 á laugardögum.

Fram hefur komið að borgarbúar eru almennt jákvæðir fyrir göngugötum í miðbænum á meðan meiri efasemdir hafa verið á meðal rekstraraðila, þá sérstaklega varðandi það hvort göngugötur eigi að vera allt árið um kring.

Tímabundnar göngugötur verða merktar með viðeigandi merkjum. Búið er að setja upp umferðarmerki við varanlegu göngugöturnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×