Lífið

„Ég hélt að ég væri bara búinn að sigra heiminn“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Rætt var við Arnar Gauta í þættinum Gagnaverið.
Rætt var við Arnar Gauta í þættinum Gagnaverið. Aðsend mynd

Auglýsendur flykkjast inn á samfélagsmiðilinn TikTok vegna gríðarlegra vinsælda hans, sérstaklega vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Eitt af því sem hefur tryggt vinsældir TikTok er snjöll hönnun og svo er þar mikið af fjölbreyttu efni svo allir ættu að geta fundið sér eitthvað við hæfi.

Margir Íslendingar eru komnir á TikTok, þar á meðal er Arnar Gauti, en hann hefur náð að safna yfir 232.000 fylgjendum á miðlinum og aðeins fjögur prósent þeirra eru Íslenskir. Í nýjasta þætti af hlaðvarpinu Gagnaverið fer Arnar Gauti yfir það hvernig hann náði að safna þessum fylgjendafjölda.

„Ég byrjaði á TikTok núna í fyrra, semsagt 2019, einhvern tímann í september út af því að Gauti vinur minn var alltaf að hamast í mér að byrja út af því að þetta væri svo spennandi og nýtt og svona. Svo var ég alltaf að setja einhver gömul myndbönd inn, sem ég átti í símanum.“

B5 myndbandið byrjunin á ævintýrinu

Arnar Gauti er 21 árs gamall og er þekktur sem Lil Curly á TikTok en notendanafnið hans er lilcurlyhaha. Í janúar á þessu ári vaknaði Arnar Gauti með fullt af ólesnum skilaboðum frá ókunnugu fólki.

„Hvað þarf ég að borga þér fyrir að nota lagið mitt á TikTok?“

Hann áttaði sig á því að meira en 400.000 einstaklingar höfðu skoðað TikTok myndband frá honum, DJ myndband frá B5 frá því nokkrum dögum áður. Meira en 10 milljónir hafa skoðað það myndband í dag.

@lilcurlyhaha

Can t believe he just did that!

original sound - lilcurlyhaha

„Ég hélt að ég væri bara búinn að sigra heiminn.“

Síðan þá hefur hann birt reglulega myndband og hefur mjög gaman af því að „harka“ á þessum miðli.

„Þetta er svolítil sýra fyrir eldra fólkið því þetta eru bara svona krakkar inni að fylgjast með þessu. Það sem mér finnst fyndið, ef ég set það inn þá verður það ekkert vinsælt, ég þarf að setja bara inn einhvern svona trending dans sem mér finnst kannski ekkert fyndinn en virkar.“

Tapaði sjálfsvirðingunni fyrir fleiri fylgjendur

Arnar Gauti segir að meðal krakka sé hann það vinsæll að börn elta hann um Kringluna og taka af honum myndbönd að ganga. Foreldrar hans trúa því varla þessum óvæntu vinsældum en flestir fylgjendur Arnars Gauta eru í Bandaríkjunum.

Hann segir að efnið sem virki oftast á TikTok sé ógeðslega heilalaust og vitlaust.

„Ég er alveg búinn að missa smá sjálfsvirðingu fyrir sjálfum mér á að vera á þessu appi.“

Viðtalið við Arnar Gauta hefst á mínútu 34:46 í þættinum.

Hvað gerir miðilinn svona vinsælan? Hvernig er algóriþminn að velja efnið fyrir okkur? Hefur TikTok náð sínum hæðum eða eru þeir rétt að byrja? Hver er tengingin við Kína? Af hverju var forritið bannað í Indlandi?

Þessum spurningum og mörgum fleiri er svarað í þættinum, sem hægt er að hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.

Gagnaverið er nýtt hlaðvarp hér á Vísi og er fyrir alla sem hafa áhuga á að læra meira um tæknina sem er alls staðar í kringum okkur. Meðal annars verður fjallað um rafíþróttir, 5G, sjálfkeyrandi bíla, raddstýringu tækja og svo verður líka farið yfir það hvernig gervigreind virkar. Umsjónarmenn þáttanna eru Arnar Kjartansson, María Rós Kaldalóns og Jóhann Hall.


Tengdar fréttir

Gagnaverið: Allt sem þú þarft að vita um TikTok

Í nýjasta þætti af hlaðvarpinu Gagnaverið er fjallað um samfélagsmiðilinn TikTok. Hann hefur náð gífurlegum vinsældum á síðustu tveimur árum og þá sérstaklega vegna útbreiðslu Covid-19.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×