Körfubolti

Elvar Már og félagar krýndir sænskir meistarar eftir að tímabilinu var aflýst

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elvar Már Friðriksson er sænskur meistari á sínu fyrsta tímabili með Borås.
Elvar Már Friðriksson er sænskur meistari á sínu fyrsta tímabili með Borås. Vísir/Daníel

Sænska körfuboltasambandið og sænska handboltasambandið eru ekki alveg samstíga í aðgerðum sínum vegna kórónuveirunnar.

Sænska körfuboltasambandið hefur aflýst tímabilinu og ákveðið að liðin sem eru efst í deildunum verði sænskir meistarar tímabilið 2019-20.

Sænska handboltasambandið lifir enn í voninni um að getað klárað tímabilið hjá sér með því að spila úrslitakeppnina eftir að deildarkeppninni lýkur. Það er samt til plan B og það er að deildarmeistararnir verði krýndir sænskir meistarar.

Ákvörðun sænska körfuboltasambandsins þýðir að Elvar Már Friðriksson er sænskur meistari á sínu fyrsta tímabili með Borås. Borås var með fjögurra stiga forystu á toppi sænsku deildarinnar þegar tímabilinu var aflýst.

Elvar Már hefur átt mjög flott tímabil með Borås og varð meðal annars efstur í stoðsendingum á tímabilinu með 7,7 slíkar í leik. Elvar skoraði sjálfur 16,9 stig að meðaltali í leik.

Sænska handboltasambandið ætlar að láta alla leiki fara fram en það verða engir áhorfendur leyfðir á leikjunum. Handboltasambandið mun þó seinka úrslitakeppninni sem hefst ekki fyrr en um miðjan apríl og mun líka fækka leikjum í henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×