Innlent

Fimmtán ný smit milli daga

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hjúkrunarfræðingur gerir sig reiðubúinn á bráðamóttökunni í Fossvogi.
Hjúkrunarfræðingur gerir sig reiðubúinn á bráðamóttökunni í Fossvogi. vísir/vilhelm

Staðfest smit nýs afbrigðis kórónuveiru sem veldur Covid-19-sjúkdómnum eru nú alls 1.754 hér á landi. Staðfestum smitum fjölgaði um 15 frá því að síðustu tölur birtust á covid.is klukkan eitt í gær. Virk smit eru nú 522 talsins.

Alls eru nú 35 innlagðir og sex á gjörgæslu vegna Covid-19. Þá hefur 1224 manns batnað af veikinni. 1543 einstaklingar í sóttkví og 522 í einangrun. 17.445 manns hafa lokið sóttkví. Sýni hafa verið tekin úr 39.563 manns, þar af rúmlega 1300 síðasta sólarhring. Einn lést af völdum veirunnar milli daga, hafa því alls níu látist hér á landi.

Klukkan tvö verður haldinn upplýsingafundur almannavarna og landlæknis þar sem farið verður yfir stöðu mála í sambandi við faraldurinn og farið yfir aðgerðir til að sporna við útbreiðslu kórónuveirunnar.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Alma Möller landlæknir verða á staðnum til að upplýsa landsmenn um þróun mála með tilliti til kórónuveirunnar hér á landi. Þá verður Hildigunnur Svavarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Sjúkrahúsinu á Akureyri, gestur fundarins, sem verður í beinni útsendingu hér á Vísi og Stöð 2 Vísi í kerfum Vodafone og Símans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×