Erlent

Kalla eftir afsögn ráðgjafa Johnson eftir brot á sóttvarnareglum

Andri Eysteinsson skrifar
Dominic Cummings hefur unnið náið með Johnson í tíð hans í Downingsstræti, auk þess stýrði hann Leave- kosningabaráttunni í Brexit málum 2016.
Dominic Cummings hefur unnið náið með Johnson í tíð hans í Downingsstræti, auk þess stýrði hann Leave- kosningabaráttunni í Brexit málum 2016. Getty/Peter Summers

Kallað hefur verið eftir afsögn Dominic Cummings, helsta ráðgjafa forsætisráðherra Bretlands, eftir að Cummings ferðaðist frá Lundúnum til Durham eftir að hafa verið gert að einangra sjálfan sig eftir að hafa fundið fyrir einkennum kórónuveirusmits.

Cummings hélt ásamt eiginkonu sinni, sem líka hafði fundið fyrir einkennum, til heimilis foreldra hans í borginni Durham í norð-austur Englandi. Bresku dagblöðin Guardian og Daily Mirror greindu fyrst frá ferðalagi Cummings hjónanna.

Flokksmenn Verkamannaflokksins hafa gagnrýnt framferði hjónanna og kallað eftir afsögn Cummings. „Ef fréttaflutningurinn stenst þá virðist ráðgjafinn hafa brotið gegn sóttvarnareglum. Tilmæli yfirvalda voru mjög skýr, haldið ykkur heima og engin óþarfa ferðalög. Breska þjóðin getur ekki vænt þess að ein lög gangi yfir þjóðina og önnur yfir Dominic Cummings,“ er haft eftir einum af talsmönnum Verkamannaflokksins.

BBC hefur greint frá því að Cummings hafi farið til Durham til þess að einangra sig í gestahúsi foreldra sinna svo að börn hans gætu verið þar í pössun.

Leiðtogi Skoska þjóðarflokksins á þingi, Ian Blackford, sagði í viðtali við BBC Radio 4 að Cummings ætti að sjá sóma sinn í því að segja af sér. „Ef hann segir ekki upp ætti Boris Johnson að reka Cummings og það í dag. Þegar fyrirmælum yfirvalda er ekki framfylgt með þessum hætti ætti að búast við því að eitthvað yrði gert,“ sagði Blackford.

BBC greinir frá því að Cummings telji sig ekki hafa brotið sóttvarnarreglur. Tveir starfsmenn bresku ríkisstjórnarinnar hafa þegar sagt upp störfum eftir að hafa brotið gegn sóttvarnarreglum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×