Friedrich Merz, fyrrverandi leiðtogi þingflokks Kristilegra demókrata í Þýskalandi, segir Evrópusambandið þurfa að gæta sín að verða ekki „millifærslusamband“ þar sem ríkari aðildarríki eru látin koma fátækari aðildarríkjunum til bjargar hvenær sem þau eru í fjárhagsvanda. Þetta sagði hann í samtali við fréttastofu Reuters en hann er einnig talinn líklegur eftirmaður Angelu Merkel kanslara.
Hann sagði að ESB dansaði línudans með fjárhagslega björgunarpakka sem verið er að ræða hjá sambandinu þessa dagana. Frakkland og Þýskaland lögðu til að 500 milljarða evra sjóður yrði stofnaður sem myndi veita styrki til svæða ESB sem yrðu verst úti vegna kórónuveirufaraldursins. Það samsvarar um 7.838 milljörðum íslenskra króna.
Merz sagði að þegar hann, sem þingmaður í Evrópuþinginu og þýska þinginu, hefði samþykkt Efnahags- og myntbandalagið hafi hann lofað kjósendum því að það myndi ekki breytast í „Evrópska millifærslubandalagið.“
„Ég tel mig bundinn þessu loforði – einnig til að gefa andstæðingum Evrópusambandsins ekki höggfæri sem hægt er að misnota í næstu alríkiskosningum,“ sagði hann í viðtalinu sem birt var í morgun og vísaði í kosningar til kanslara sem haldnar verða á næsta ári í Þýskalandi og hann hyggst bjóða sig fram til.
Frumvarpið um sjóðinn var kynnt af Angelu Merkel, Þýskalandskanslarar, og Emmanuel Macron, forseta Frakklands. Þýskir flokkar á hægri-vængnum hafa gagnrýnt frumvarpið harðlega. Þá hafa mörg flokkssystkina Merkel lýst yfir áhyggjum vegna frumvarpsins.