Leikmenn danska úrvalsdeildarfélagsins AaB og samherjar Jores Okore, og þar á meðal hann sjálfur, höfðu ekki hugmynd að það væri verið að rannsaka hvort Okore hafi gerst brotlegur um veðmálasvindl. Þetta segir yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu.
Eins og Vísir greindi frá í gær rannsakar nú lögreglan í Danmörku hvort að mögulegt sé að Okore hafi viljandi fengið gult spjald undir lok leiks AaB og OB í dönsku úrvalsdeildinni en háum fjárhæðum var spilað á að Okore myndi fara í svörtu bók dómarans í leiknum.
Okore, samherjar hans og aðrir innan Álaborgar-liðsins lásu hins vegar fyrst um það á mánudaginn að umrædd rannsókn var í gangi. Ekki hafi neinn verið látinn vita og þetta staðfestir André Inge Olsen, yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu.
Hann tók við hjá félaginu í apríl en segir að hann hafi ekki vitað til að neinn hjá félaginu hafi vitað af þessu. Þetta hefur ekki vakið mikla kátínu hjá leikmönnum félagsins, að þeir hafi lesið um þetta mál í fjölmiðlum og hafa kallað eftir fundi með forráðamönnum félagsins. Sá fundur verður haldinn fyrir æfingu liðsins í dag.
Heimildir danskra miðla herma að veðjað hafi verið á umrætt veðmál upphæð sem jafngildir sex tölum danskra króna. Það getur því hæst verið rúmlega 999 þúsundur danskar krónur sem eru um tuttugu milljónir íslenskra króna á núverandi gengi. Leikmannasamtökin í Danmörku hafa skorist í málið og hafa meðal annars boðið Okore sálfræðihjálp sem og að borga fyrir hann lögfræðiaðstoð til að fá úr þessu skorið.