Guðmundur Gunnarsson, framkvæmdarstjóri Fjölnis, segir að félögin geti ráðstafað peningnum frá ÍSÍ eins og þau vilja en Fjölnir var það íþróttafélag sem fékk hæsta styrkinn frá ÍSÍ vegna áhrifa COVID-19.
Íþrótta-og Ólympíusamband Íslands birti það í gær á heimasíðu sinni í hvernig peningarnir skiptust á milli íþrótta- og ungmennafélaganna og ekkert lið fékk meira en Fjölnir eða rúmlega 18 milljónir króna.
„Þessir peningar eru áætlaðir fyrir allt félagið og eins og kemur fram í þessari úthlutun þá endurspeglar það stærð og umfang félaganna. Þetta fer fyrst og fremst eins og meginhluti okkar fjármuna í launa- og verktakagreiðslur,“ sagði Guðmundur í samtali við Henry Birgi Gunnarsson í Sportinu í dag. Hann segir að mestur hluti peninganna fari í þessa launaliði.
„Meirihlutinn almennt í félaginu fer í að borga þessa liði. Við erum að greiða laun og þjónustu þjálfara og í sumum tilvikum leikmönnum á afreksstiginu okkar. Þetta fer einnig í mótagjöld og þessa hluti,“ en hann segir að peningurinn muni einnig fara í meistaraflokka félagsins.
„Eins og við lítum á þetta þá er þetta styrkur til félagsins svo já þetta mun hjálpa til á afreksstiginu líka. Við erum með átta meistaraflokka plús afrekshópa í fimleikum og í einstaklingsgreinum. Þar eru þjálfarar og leikmenn og þetta styrkir allan pakkann.“
Hann segir að peningurinn sé ekki eyrnamerktur einu verkefni innan félagsins, eins og barna- og unglingastarfi, heldur geti hvert félag fyrir sig ráðið hvernig peningunum er ráðstafað.
„Við lítum á þetta félag sem eina heild þó að þetta séu ellefu eða tólf deildir. Við ætlum okkur að koma því öllu í gegn og þessir fjármunir styrkja við það,“ sagði Guðmundur.
Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.