Fótbolti

Rannsaka veð­mála­svindl í Dan­mörku: Fyrrum leik­maður ensku úrvalsdeildarinnar grunaður

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jores Okore er mögulega í vandræðum.
Jores Okore er mögulega í vandræðum. vísir/getty

Lögreglan í Danmörku rannsakar nú mögulegt veðmálasvindl sem á að hafa átt sér stað í leik AaB og OB í efstu deild dönsku knattspyrnunnar sem fór fram þann 18. október 2019. AaB vann 1-0 sigur í leiknum.

Álaborgar-liðið staðfesti á heimasíðu sinni í gær að félagið hefði fengið það staðfest frá lögreglunni að félagið gæti verið miðpunkturinn í veðmálasvindli en Ekstra Bladet greinir svo frá því talað sé um einn launahæsta leikmann liðsins Jores Okore.

Ekstra Bladet segir frá því á vef sínum að heimildarmenn þeirra hafi lengi fylgst með málinu en háum fjárhæðum var spilað á að varnarmaðurinn Okore myndi fá gult spjald í leiknum. Hann nældi sér í það á 92. mínútu fyrir ansi groddalega tæklingu.

Þetta var hans fyrsta brot í leiknum en lokað var fyrir að hægt væri að veðja á að Okore myndi fá gult spjald skömmu fyrir leikinn þar sem ansi stórar fjárhæðir höfðu þá borist á þetta tiltekna veðmál. Peningarnir sem unnust á þessu veðmáli voru svo raknir til Kaupmannahafnar en ekki út úr landinu eins og venjan er.

Ekstra Bladet hefur reynt að fá bæði tali af umboðsmanni Okore og leikmanninum sjálfum en það hefur ekki tekist. Einnig neitar Álaborgar-liðið að tjá sig enn frekar um málið en Okore er einn öflugasti varnarmaður deildarinnar.

Okore hefur verið í herbúðum AaB frá því sumarið 2017 en hann hefur einnig leikið með Nordsjælland og FCK í Danmörku. Á árunum 2013 til 2016 lék hann með Aston Villa þar sem hann lék 38 leiki en að auki hefur hann leikið átta landsleiki fyrir danska landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×