Fótbolti

Topplið Evrópu gætu orðið af þremur og hálfum milljarði punda

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Talið er að Borussia Dortmund verði af tveimur og hálfri milljón punda fyrir hvern leik sem liðið leikur fyrir luktum dyrum.
Talið er að Borussia Dortmund verði af tveimur og hálfri milljón punda fyrir hvern leik sem liðið leikur fyrir luktum dyrum. EPA-EFE/MARTIN MEISSNER

Talið er að topplið evrópskrar knattspyrnu gætu orðið af þremur og hálfum milljarði punda í tekjur vegna kórónufaraldursins. Gerir það um 619 milljarða íslenskra króna.

Miðast þessar tölur við að deildarkeppni í Englandi, Spáni, Þýskalandi, Frakklandi og á Ítalíu fari aftur af stað og yfirstandandi leiktímabil klárist í haust. Gangi það ekki eftir er talið að félögin í þessum deildum verði af rúmlega sex milljörðum punda eða yfir billjarð íslenskra króna.

BBC greinir frá.

Upphæðirnar útskýra af hverju knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur lagt jafn mikla vinnu og raun ber vitni í það að finna lausnir á hvernig megi klára tímabilin í stærstu deildum Evrópu. 

Þá verður reynt að klára undankeppnir Evrópudeildarinnar og Meistaradeildar Evrópu fyrir október en það gæti reynst þrautin þyngri þar sem enn á eftir að klára báðar þessar keppnir.

Annar höfuðverkur UEFA er svo landsleikir en Ísland á til að mynda eftir að spila umspilsleiki um sæti á Evrópumótinu sem fram fer næsta sumar.

Þó það hafi gengið vel að koma á regluverki er varðar prófanir á leikmönnum í Þýskalandi og í stærstu deildum Evrópu þá segir Tim Meyer, yfirmaður læknanefndar UEFA, að það verði hægara sagt en gert að yfirfæra það kerfi á öll 55 aðildarríki sambandsins.

Þó svo að deildir víðsvegar um Evrópu fari aftur af stað á komandi vikum þá er samt reiknað með að félög verði af gríðarlegu fjármagni. Borussia Dortmund verður til að mynda af tveimur og hálfri milljón punda fyrir hvern heimaleik sem liðið leikur fyrir luktum dyrum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×