Samanlagður auður þúsund ríkustu einstaklinga Bretlands hefur minnkað, í fyrsta sinn í tíu ár. Ástæðan er faraldur kórónuveirunnar sem valdið getur sjúkdómnum Covid-19. Einn þeirra sem tapað hefur á faraldrinum er Jim Ratcliffe, landeigandi á Íslandi.
Samkvæmt lista Sunday Times yfir ríkustu menn Bretlands hafa hinir allra auðugustu þar í landi tapað alls um 54 milljörðum punda á síðustu vikum og mánuðum. Það samsvarar um 9.500 milljörðum íslenskra króna.
Jim Ratcliffe, sem vakið hefur athygli hér á landi fyrir jarðakaup og yfirlýsingar um að vilja vernda íslenska laxastofninn, er í fimmta sæti listans yfir auðugasta fólk Bretlands. Samkvæmt Times er hann nú metinn á tólf og hálfan milljarð punda, eða 2,2 billjónir íslenskra króna. Virði hans hefur þó dregist saman um sex milljarða punda ef marka má lista dagblaðsins.
Ratcliffe hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir sýn sína á umhverfismál, en þar hefur sérstaklega verið bent á skaðsemi vökvabrots (e. fracking), afar umdeildrar vinnslu á jarðgasi, sem fyrirtæki Ratcliffe, Ineos, hefur stundað.
Meðal annarra sem ofarlega sitja á listanum eru James Dyson ryksuguframleiðandi, Leonard Blavatnik fjárfestir og óligarkinn Alisher Usmanov.