Erlent

Ljós­myndari Bítlanna er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Astrid Kirchherr og John Lennon um árið 1960.
Astrid Kirchherr og John Lennon um árið 1960. Getty

Astrid Kirchherr, þýskur ljósmyndari sem mikið myndaði Bítlana á fyrstu starfsárum þeirra, er látin, 81 árs að aldri. Myndir Kirchherr áttu mikinn þátt í að skapa og móta ímynd sveitarinnar.

Kirchherr tók fyrstu myndirnar af sveitinni eftir að hún sá þá troða upp á skemmtistað í Hamborg árið 1960.

Sagnfræðingurinn Mark Lewisohn, sem hefur sérhæft sig í sögu Bítlanna, greindi frá andláti hennar í gær. Lést hún í Hamborg síðastliðinn miðvikudag eftir skammvinn veikindi. Lewisohn sagði myndir Kirchherr hafa haft ómælanleg áhrif á sveitina.

Kirchherr átti í ástarsambandi við Stuart Sutcliffe, upprunalegum bassaleikara sveitarinnar, og trúlofaðist honum, en Sutcliffe lést af völdum heilablæðingar árið 1962, einungis 21 árs gamall. Árið 1994 kom út kvikmynd um samband þeirra Kirchherr og Sutcliffe, Backbeat, þar sem Sheryl Lee fór með hlutverk ljósmyndarans Kirchherr.

Kirchherr, sem gekk tvívegis í hjónaband á ævi sinni, hélt vinasambandi við aðra meðlimi Bítlanna og tók ljósmyndir af þeim allan sjöunda áratuginn.

Auk þess að starfa sem ljósmyndari var Kirchherr stílisti og innanhússhönnuður, auk þess að reka ljósmyndaverslun í Hamborg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×