Daði Freyr og Gagnamagnið unnu sigur í sérstakri atkvæðagreiðslu áströlsku sjónvarpsstöðvarinnar SBS Ástrala um besta Eurovision-lagið í ár.
Líkt og margar sjónvarpsstöðvar stóð SBS fyrir sérstakri Eurovision-útsendingu þar sem engin verður keppnin í ár vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Útsending SBS bar nafnið Eurovision 2020: Big Night In!
Í frétt á vef SBS kemur fram að rússneska framlagið, Uno, hafi hafnað í öðru sæti og það lítháíska, On Fire, í því þriðja.
Þegar hefur verið greint frá því að Daði Freyr hafi unnið sigur í sambærilegum atkvæðagreiðslum í Noregi og Svíþjóð.