Erlent

Skoða frekari aðstoð til flugfélaga

Sylvía Hall skrifar
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada. Vísir/Getty

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, segir það í skoðun hvernig hægt sé að hjálpa flugfélögum þegar ferðalög milli landa liggja nánast niðri. Air Canada, stærsta flugfélag landsins, tilkynnti í gær að sextíu prósent starfsfólks yrði sagt upp til þess að lækka rekstrarkostnað.

Flugfélög um allan heim hafa fundið verulega fyrir áhrifum kórónuveirufaraldursins, flugumferð var 53 prósent minni í mars samanborið við sama mánuð í fyrra og hafa mörg stærri flugfélög lýst yfir gjaldþroti. Virgin Australia, næst stærsta flugfélag Ástralíu, lýsti yfir gjaldþroti í lok aprílmánaðar, breska flugfélagið FlyBe fór einnig í þrot og fjögur dótturfélög Norwegian hafa farið sömu leið.

Þá hafa flugfélög víða um Evrópu þurft á ríkisaðstoð að halda til þess að halda lífi. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkti sjö milljarða evra aðstoðarpakka fyrir Air France og fyrr í mánuðinum samþykktu sænsk og dönsk stjórnvöld ríkisstyrkta lánalínu til SAS flugfélagsins.

Yfirvöld í Kanada hafa gripið til sambærilegra aðgerða og íslensk stjórnvöld með svokallaðri hlutabótaleið og lán til fyrirtækja með mikinn fjölda starfsfólks. Trudeau segir frekari aðgerðir til skoðunar, en gaf þó ekkert upp um hverskonar aðgerðir væri að ræða.


Tengdar fréttir

Reyna að bjarga Air France og Norwegian

Hluthafar í norska lággjaldaflugfélaginu Norwegian samþykktu í morgun björgunaraðgerðir, en félagið rambar á barmi gjaldþrots um þessar mundir. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkti sjö milljarða evra aðstoðarpakka fyrir Air France.

Næst stærsta flugfélag Ástralíu í þrot

Næst stærsta flugfélag Ástralíu, Virgin Australia, hefur lýst yfir gjaldþroti og er því fyrsta ástralska stórfyrirtækið sem verður faraldrinum að bráð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×