Innlent

Jón H. Bergs er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Jón H. Bergs.
Jón H. Bergs. Aðsend

Jón H. Bergs, fyrrverandi forstjóri Sláturfélags Suðurlands til margra ára og formaður Vinnuveitendasambands Íslands, er látinn, 92 ára að aldri. Hann andaðist á Dvalarheimilinu Eir þann 13. apríl síðastliðinn.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Jón lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1947 og embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1952. Þá stundaði hann framhaldsnám við Columbia University School of Law í New York og öðlaðist svo réttindi sem héraðsdómslögmaður árið 1956.

Jón starfaði sem fulltrúi SS í Reykjavík á árunum 1951 til 1956 og var svo forstjóri fyrirtækisins 1957 til 1989. Þá sat hann í framkvæmdanefnd Vinnuveitendasambandi Íslands 1961 til 1978 og var formaður sambandsins á árunum 1971 til 1978. Hann var sæmdur fálkaorðunni árið 1973.

Eiginkona Jóns var Gyða Bergs, en hún lést í nóvember 2017. Þau eignuðust þrjú börn – Lauru kennara og verkefnastjóra, Magnús Helga verkfræðing og Jón Gunnar framkvæmdastjóra. Laura lést árið 2010.

Barnabörn Jóns og Gyðu eru níu og barnabarnabörnin orðin alls sjö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×