Innlent

Hjúkrunarfræðingar og ríkið funda á skírdag

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Samninganefndirnar hafa fundað hjá ríkisáttasemjara í Borgartúni að undanförnu.
Samninganefndirnar hafa fundað hjá ríkisáttasemjara í Borgartúni að undanförnu.

Fundur samninganefnda ríkisins og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga stóð yfir í sex klukkustundir og lauk um klukkan 19 í kvöld, án niðurstöðu. Búið er að boða næsta fundi í deilunni á morgun, skírdag, klukkan 13. Ríkissáttasemjari segir góðan gang í viðræðunum og að þær þokist áfram.

Samninganefndirnar munu funda í húsakynnum ríkissáttasemjara á morgun eins og þær hafa gert undanfarna daga. Þær fengu undanþágu frá þeim takmörkunum sem embættið innleiddi vegna kórónuveirunnar en flestir fundir hjá embættinu síðustu vikur hafa farið fram með rafrænum hætti.

Að loknum fundi gærdagsins sagði Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari, að rík áhersla sé hins vegar lögð á sóttvarnir meðan á fundunum stendur. Þannig sé tryggt að tveggja metra reglan svokallaða sé í hávegum höfð. Fyrir vikið geti samninganefndirnar aðeins sent þrjá fulltrúa á hvern fund.

Aðalsteinn segir að viðræður hjúkrunarfræðinga og ríkisins séu „þungar og flóknar“ en um leið „í algjörum forgangi“ hjá öllum þeim sem koma að málinu. Viðræðurnar þokist áfram og segir Aðalsteinn að samvinnan sé „góð og þétt.“


Tengdar fréttir

Samningsaðilar finni til ábyrgðar

Ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga á mánudaginn. Forstjóri Landspítalans hefur kallað eftir sérstakri umbun fyrir heilbrigðisstarfsfólk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×