Innlent

Covid-sjúkum býðst fjarheilbrigðisforrit

Birgir Olgeirsson skrifar
Sidekick Fjarheilbrigðisforritið
Sidekick Fjarheilbrigðisforritið

Landspítalinn hefur tekið í notkun fjarheilbrigðisforrit sem verður sent í síma Covid-sjúklinga. Þar geta sjúklingar greint frá einkennum sínum og fengið ráðgjöf frá sérfræðingum.

Fyrir um tveimur vikum óx starfsfólki Landspítalans mjög í augum sá fjöldi sjúklinga sem þyrfti að sinna vegna kórónuveirunnar. Var talið að verkefnið yrði of stórt fyrir símavöktunarkerfið. Ráðist var í hönnun snjallforrits í samvinnu við fyrirtækið Sidekick.

Ef einhver greinist með Covid-19 þá er honum boðið þetta forrit í símann.

„Þá getur þú skráð þig inn og fengið upplýsingar um sjúkdóminn. Þar er sjúkraþjálfari sem fer í gegnum öndunaræfingar og sálfræðingur fer yfir andlega þætti. Þetta gerir okkur kleift að fylgjast með einkennum sem sjúklingurinn skráir sjálfur. Þetta gerir okkur það mögulegt að ef faraldurinn vex meira en hann er núna, þá getum við sinnt þessum breiða hópi fólks, bæði með símavöktun og snjallforriti, og kallaða þá veikustu inn á göngudeildina og lagt þá inn ef svo ber undir,“ segir Ragnar Freyr Ingvarsson, yfirlæknir Covid-göngudeildar Landspítalans.

Talið er að Covid-teymi Landspítalans geti sinnt um 12-15 hundruð sjúklingum á dag og hringt um 4-500 símtöl.

„Við sjáum fyrir okkur að ef faraldurinn verður mikið stærri þá er gott að hafa einhvern stuðning með þeirri vinnu og þar kemur þetta snjallforrit inn í myndina,“ segir Ragnar Freyr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×