Lífið

Upplifði tómarúm þegar Eurovision var aflýst

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Andrés Jakob Guðjónsson segir að Eurovision sé fyrst og fremst sameiningartákn.
Andrés Jakob Guðjónsson segir að Eurovision sé fyrst og fremst sameiningartákn. Mynd/Úr einkasafni

Aðdáendur Eurovision söngvakeppninnar hér á landi ætla að láta alla helgina snúast um lögin sem komust í keppnina þetta árið. Einn af þeim er Andrés Jakob Guðjónsson, einn þriggja stjórnenda Facebook hópsins Júróvisjón 2020 þar sem þúsundir íslenskra aðdáanda rifja upp eftirminnileg atriði, ræða lögin í ár og allt annað sem tengist keppninni. Andrés segir að það sé ógleymanleg tilfinning að fara á Eurovision.

„Mér fannst stjórnendur vera mjög seinir til að taka þessa ákvörðun en það var nokkuð ljóst í hvert stefndi. Mér fannst líka að þetta væri ekki rétt ákvörðun. Nógu eru stjórnendur snjallir að það hefði verið hægt að finna út úr þessu,“ segir Andrés.

Andrés (lengst til hægri) ásamt Karli eiginmanni sínum og vinum þeirra, Guðrúnu og Garðari á Eurovision í Vín.Mynd/Úr einkasafni

Ég er bara ég

„Ég var fyrst miður mín og svo varð eitthvað óþægilegt tómarúm sem ég varð að fylla svo þá fór ég að sinna Júróvisjón 2020 aðeins betur, skoða Eurovision myndbönd með öðrum aðdáendum í heiminum sem voru á sama stað og maður sjálfur og reyna að missa ekki af því hvað væri að gerast.“

Andrés sá fyrstu keppnirnar sem Ísland sendi fulltrúa í en eftir að hann flutti til Svíþjóðar þá breyttist allt. „CarolaHäggkvist vann árið 1991 og fékk ég Eurovision bakteríuna beint í æð. Það var æðislegt að búa í landi sem vann Eurovision. Keppnin var haldin í Malmö árið eftir eða 1992 og ég bjó rétt hjá og foreldrar mínir unnu í Malmö svo maður fann spennuna byggjast upp."

Hann segir að keppnin sé fyrst og fremst sameiningartákn.

„Þú mátt vera þú sjálfur eða sjálf og því sérlega góður hópur fyrir homma eins og mig sjálfan. Það er svo að maður kemur næstum daglega út úr skápnum en í þessum fríða hópi þarf ég ekki að hugsa um það. Ég er bara ég. Ég þarf ekki að hugsa um að þurfa að vera eitthvað annað en ég er.“

Andrés sem Verka frá ÚkraínuMynd/Úr einkasafni

Umræða um stóru málin

Andrés segir að hann sjái einfaldlega enga galla á þessari keppni.

„Helstu kostirnir er að það er óskrifað samkomulag um að sýna mikinn kærleik og mikla gleði með fullt af glimmeri. Annar stór kostur er að keppnin dregur fram málefni homma og kvenna eins og kvenfyrirlitning, rasisma, deilur um þjóðerni, stríð og hvaðeina. Það skapast umræða um stóru málin sem er stór kostur. Allir hlusta og nauðsynlegt er að nota þennan vettvang til að eiga samskipti, hlusta og upplýsa.“

Andrés fékk ekki miða á keppnina í ár en ætlaði samt að fara út til Rotterdam þessa viku og taka þátt í hátíðarhöldunum.

„Við erum fimm vinir sem vildu fara og ákváðum að fara bara á aðalkeppnina. Úr því við vildum bara á aðalkeppnina þá vildum við ekki taka frá miða frá öðrum í aðdáendafélaginu FÁSES sem vildu fara á dómararennslin, undankeppnirnar og aðalkeppnina. Við biðum eftir að miðasalan fór í gang fyrir almenning með allt klárt, kortanúmer og alles. Við fengum ekki miða en á þessum tíma vorum við vinirnir að hugsa um að fara samt til Hollands og fara svo í ferðalag suður til Frakklands.“

Andrés og Hera Björk, sem hann kallar Eurovision drottningu Íslendinga.Mynd/Úr einkasafni

Fångad av en stormvind á toppnum

Hann segir að það sé ógleymanlegt að vera í áhorfendasalnum á þessari keppni.

„Það var alveg einstakt að fara á Eurovision keppni. Ég fór árið 2015 í Vín þegar Måns Zelmerlöw vann með laginu Heroes fyrir Svíþjóð. Við vinirnir vorum á svæði fyrir aðdáendur, Eurofan zone, sem var alveg upp að sviðinu. Ég labbaði einn inn á svæðið og klökknaði af gleði. Mig langaði helst að gráta af gleði. Ég trúði ekki að ég væri loksins kominn á Eurovision. Einstök upplifun. Aðrar stórkostlegar minningar er þegar Carola vann. Ég mun aldrei gleyma þeirri stund og svo þegar Selma lenti í öðru sæti. Sú stund mun seint renna úr minni.“

Andrés í sjónvarpsviðtali á Eurovision keppninni í Vín.Mynd/Úr einkasafni

Andrés bjó í mörg ár í Svíþjóð og á mörg uppáhalds lög sem Svíþjóð hefur sent í keppnina.

„Ég byrja á Fångad av en stormvind með Carola Häggkvist árið 1991. Það verður alltaf í uppáhaldi.“

Þau framlög Íslands sem standa upp úr að hans mati eru Eitt lag enn með Stjórninni, All Out of Luck með Selmu Björnsdóttir og Open Your Heart með Birgittu Haukdal. „Það mætti líka bæta Heru Björk við með laginu Je ne sais quoi frá 2010 í Noregi. Hún er Eurovision drottning okkar eins og Carola er Eurovison drottning Svía,“ segir Andrés. Hann á líka mörg önnur lög í uppáhaldi.

„Conchita með lagið Rise Like A Phoenix síðan 2014 og Paula Seling og Ovi með lagið Playing With Fire síðan 2010 frá Rúmeníu. Patricia Kaas frá Frakklandi með lagið Et S´il Fallait Le Faire síðan 2009, árið sem við lentum í öðru sæti með Jóhönnu Guðrúnu og lagið Is It True. Svo er annað sem ég verð að nefna en það eru eiginlega öll Schlagerlögin og Balkan lögin og svo Nocturne frá Írlandi.“

Þetta hjarta er 2x2 metrar að stærð og er ein af þeim skreitingum sem Andrés hefur útbúið í kringum keppnina.Aðsend mynd

Við hefðum unnið

„Íslenska lagið, lag Daða og gagnamagnsins, er sterkast og átti að vinna í ár. Röðin var komin að okkur í ár en svo er það lagið „On Fire“ með The Roop frá Litáen. Það er allt við það lag sem segir topp fimm, dansinn og búningarnir, heildar lúkkið. Bara mjög flott. Aserbaídjan með lagið „Cleopatra“ og Rússland með lagið „Uno“. Ég er alls ekki viss en það er lagið frá Ítalíu „Fai rumore“. Ég féll ekki fyrir því en held að það gæti endað í topp fimm. Ég verð samt að bæta við að ég er búinn að kjósa í kosningum á vegum OGAE eða FÁSES og þar hef ég sett lagið „Still Breathing“ sem Samanta Tina frá Lettlandi syngur í topp fimm og jafnvel í fyrsta sætið. Ég fæ ekki leið á því lagi.“

Hann er ekki í neinum vafa um það hvernig keppnin hefði farið ef henni hefði ekki verið aflýst.

„Við hefðum unnið að sjálfsögðu en þau lönd sem hefðu barist um toppinn hefðu verið Rússlands, Aserbaídjans og Litáen. Íslendingar hefðu hópast saman niður í bæ og djammað saman fram á nótt. Eins og ég kom inn á í síðustu spuriningu með sterkustu lögin að mínu mati þá held ég að Ítalía hefði ekki verið í slaginu um toppinn. Það hefði hugsanlega endað á milli áttund og tíunda sætinu. Þetta hefði orðið mjög sterk keppni og mjög skemmtileg, fjörleg og hrikalega flott sbr. lagið frá Aserbaídjan „Cleopatra“. Sviðsetning, búningar og koreografí er alltaf tipp topp. Svíar, Finnar og Norðmenn gefa okkur 12 stig og en lenda í ágætum sætum. Finnar næðu þó ekki topp 10 en hefðu samt lent í ellefta eða tólfta sæti.“

Aðspurður hvort Daði ætti að fara fyrir Íslands hönd í keppnina 2021 svarar Andrés:

„Ég held að hann megi ákveða hvort hann vill eða ekki. Ef hann vill gera það og RÚV tekur vel í það þá myndi ég vilja sjá hann taka nokkur lög og við veljum eitt þeirra. Þetta hefur verið gert í Finnlandi og frægast í Þýskalandi sem dæmi og virkað mjög vel. Þetta fyrirkomulag er auðvitað allt öðruvísi en það mætti alveg skoða það.“

Andrés segir að keppnin sé góð fyrir geðheilsuna og þar sé gleði, ást og fullt af glimmeri.Mynd/Úr einkasafni

Þakklátur fyrir öll lögin

Öll þessi vika mun snúast um keppnina og ný og gömul Eurovision lög.

„Ég er að eðlisfari þannig að ég hrífst óeðlilega mikið stundum og því á auðvelt með að finnast allt skemmtilegt og fer alltaf alla leið þegar það á við eins og í Eurovision.“

Andrés ætlar að horfa á allar útsendingarnar í ár í góðra vina hópi.

„Garðar vinur sem fór með mér, eiginmanni mínum og Guðrúnu vinkonu til Vínar um árið mun halda partýið í ár.“

Andrés skreytir alltaf í kringum keppnina til þess að skapa réttu stemninguna. „Ein helium blaðra með ESC logo er ekki nóg. Ég þarf að skreyta út um allt með glimmeri, helium blöðrum, diskóljósum, fánum og svo hefur verið hefð að kaupa súkkulaðitertu með Eurovision mynd.“

Þó að keppninni hafi verið aflýst í ár þá ætlar Andrés að gera það besta úr þessari viku og er strax byrjaður að telja niður í keppnina árið 2021.

„Ég er svo þakklátur fyrir Eurovision. Pælið í öll nýju lögin sem maður hlustar á á hverju ári þá fyrir utan það sem er ekki í Eurovision. Þetta telur mörg hundruð lög yfir mörg ár sem maður hefur pælt í og gagnrýnt og dásamað. Eurovision er svo gott fyrir geðheilsuna.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×