Erlent

Tveir dánir eftir hnífaárás í Frakklandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Árásin hófst í tóbaksverslun.
Árásin hófst í tóbaksverslun. Vísir/AP

Tveir eru dánir og fimm særðir, þar af tveir alvarlega, eftir hnífaárás í suðurhluta Frakklands, sem innanríkisráðherra landsins segir vera hryðjuverk. Flóttamaður frá Súdan var handtekinn en mun hann hafa beðið lögregluþjónana sem handtóku hann um að skjóta hann til bana.

Árásarmaðurinn, sem heitir Abdallah A. -O samkvæmt lögreglu og er á fertugsaldri, hóf árás sína í tóbaksverslun í bænum Romans-sur-lsére, þar sem hann réðst á hjónin sem eiga verslunina. Því næst fór hann til slátrara þar sem hann tók hníf og réðst á einn viðskiptavin. Eftir það réðst hann á fólk fyrir utan bakarí.

Vitni segja hann hafa kallað: „Guð er mikill“ eða „Allah Akbar“ þegar hann réðst á fólk og stakk það.

Eins og áður líta yfirvöld á árásina sem hryðjuverk en árásarmaðurinn var ekki þekktur af lögreglu né leyniþjónustum Frakklands. Frá árinu 2015 hafa 258 manns dáið í árásum sem hafa verið skilgreindar sem hryðjuverk í Frakklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×