Lífið

Litahlaupið fer fram í haust

Stefán Árni Pálsson skrifar
The Color Run hefur verið vinsælt hlaup síðustu ár. 
The Color Run hefur verið vinsælt hlaup síðustu ár. 

Ákveðið hefur verið að færa The Color Run í Reykjavík til laugardagsins 5. september 2020 en þetta kemur fram í tilkynningu frá aðstandendum hlaupsins.

Upphaflega stóð til að Litahlaupið færi fram þann 6. júní næstkomandi en í ljósi samkomutakmarkana vegna kórónuveirunnar hefur hlaupið verið fært til 5. september. Þá hefur hlaupinu á Akureyri sem fara átti fram 27. júní verið frestað og mun fara fram um Verslunarmannahelgina árið 2021.

„Skipuleggjendur hlaupsins munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að færa landsmönnum þennan mikla gleðiviðburð á sem öruggastan hátt og telja fyrirkomulag hlaupsins nægilega sveigjanlegt til að svo megi verða. Gripið verður til ýmissa ráðstafana varðandi framkvæmd viðburðarins til að koma til móts við þau tilmæli sem almannavarnir hafa uppi á þeim tíma og einnig til að gefa þátttakendum það svigrúm sem þeir vilja til að halda fjarlægð við aðra gesti. Meðal þess er að boðið verður upp á meiri sveigjanleika með ræsingartíma, auk þess sem viðburðarsvæðið þar sem þátttakendur koma saman fyrir og eftir hlaup verður stækkað,“ segir í tilkynningunni.

Aðgöngumiðar munu sjálfkrafa flytjast yfir á nýja dagsetningu og þurfa miðaeigendur ekki að grípa til neinna ráðstafana vegna breytinganna. Henti ný dagsetning ekki þátttakendum hafa þeir tvær vikur til þess að óska eftir endurgreiðslu með því að hafa samband við tix.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×