Körfubolti

Ingi Þór um brottreksturinn frá KR: Er ekkert sáttur

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Ingi Þór Steinþórsson.
Ingi Þór Steinþórsson. Vísir/Arnar

Uppsögn Inga Þórs Steinþórssonar sem þjálfara Íslandsmeistara KR var staðfest fyrr í dag og segir Ingi í samtali við Stöð 2 að uppsögnin hafi komið honum á óvart.

Fjölmiðlar greindu fyrst frá fréttunum á fimmtudag en körfuknattleiksdeild KR gaf tilkynningu þess efnis út fyrr í dag. Ingi segir frá því að honum hafi verið tilkynnt um uppsögnina í miðri viku.

„Þetta kemur fyrst upp á mánudaginn síðastliðinn. Mér var svo tilkynnt um uppsögn á miðvikudaginn. Þetta kom mér á óvart, að hluta til. Það er oft þannig í þessum bransa að tími þjálfara er styttri en menn ætla. Það var ákvörðun stjórnar að það þyrfti að breyta til,“ segir Ingi Þór í viðtali við Svövu Kristínu Grétarsdóttur.

Ingi Þór er uppalinn KR-ingur og hefur í tvígang stýrt liðinu til Íslandsmeistaratitils, síðast árið 2019. Ingi kveðst ganga stoltur frá borði.

„Stjórn og þeir sem stýra körfuboltadeildinni hjá KR telja að það sé kominn tími á nýja rödd fyrir meistaraflokkinn og það ber að virða. Það er þeirra ákvörðun og þetta er staðan.“

„Ég er ekkert sáttur. Þjálfarar eru metnir af árangri og af stöðunni í töflunni. Við erum ríkjandi Íslandsmeistarar og vorum á blússandi siglingu í deildinni. Ég geng stoltur frá mínum störfum og því sem ég hef gert fyrir KR. Ég er stoltur af því fólki sem ég hef unnið með. Það er erfitt að kveðja klúbbinn sinn og nú er bara að finna nýja áskorun,“ segir Ingi.

Viðtalið við Inga í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir neðan. Þar kemur meðal annars fram að hann hafi þegar heyrt í öðrum félögum.

Klippa: Ingi Þór um brottreksturinn frá KR

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×