Erlent

Fengu sundið aftur hálfum mánuði fyrr en Íslendingar

Kristján Már Unnarsson skrifar
Fjöldi sundlaugargesta í Nuuk takmarkast nú við 100 manns. Allt að 50 konur og 50 karlar mega vera samtímis í sundhöllinni, samkvæmt ákvörðun sóttvarnaryfirvalda.
Fjöldi sundlaugargesta í Nuuk takmarkast nú við 100 manns. Allt að 50 konur og 50 karlar mega vera samtímis í sundhöllinni, samkvæmt ákvörðun sóttvarnaryfirvalda. Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.

Grænlendingum hefur á ný verið leyft að komast í sund, en grænlensk sóttvarnaryfirvöld eru hálfum mánuði á undan þeim íslensku að opna sundlaugar. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.

Grænlendingum hefur gengið betur en flestum öðrum þjóðum að útrýma kórónuveirunni úr samfélaginu en mánuður er nú liðinn frá því upplýst var að öllum þeim ellefu einstaklingum, sem greinst höfðu með veiruna þar í landi, væri batnað. Síðan hefur ekkert nýtt smit greinst og er þetta næsta nágrannaland Íslands núna búið að vera smitlaust í sex vikur.

Sundhöllin í Nuuk var tekin í notkun árið 2003 og þykir hið veglegasta mannvirki. Um fimmtíu þúsund gestir sækja laugina árlega.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.

Samskiptatakmörkunum hefur síðan verið aflétt í áföngum. Þannig hófst kennsla í skólum og leikskólum á ný þann 20. apríl, rakarastofur, veitingahús og barir fóru í gang 25. apríl, en með hömlum á gestafjölda.

Síðastliðinn mánudag var svo leyft að opna íþróttamiðstöðvar og líkamsræktarstöðvar og þar með sundhöllina glæsilegu í Nuuk. Þó mega ekki vera fleiri en hundrað manns samtímis í sundi, 50 konur og 50 karlar, samkvæmt tilkynningu bæjaryfirvalda.

Heitu pottarnir eru vinsælir í Nuuk, rétt eins og í sundlaugum á Íslandi. Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.

Grænlensk sóttvarnaryfirvöld eru þannig hálfum mánuði á undan þeim íslensku að leyfa íbúum að fara í sund, það er að segja ef þau áform standast að íslensku laugarnar fáist opnaðar 18. maí.

Grænlendingar viðhalda þó áfram takmörkunum á komum útlendinga til landsins að minnsta kosti út maímánuð.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:

Í þætti Stöðvar 2 um mannlíf í Nuuk fyrir þremur árum var einnig fjallað um sundhöllina.


Tengdar fréttir

Öllum batnað og engin ný smit greind á Grænlandi

Landlæknir Grænlands skýrði frá því á upplýsingafundi í Nuuk í gær að allir þeir ellefu einstaklingar, sem greinst höfðu með kórónuveiruna þar í landi, teldust núna hafa náð bata. Þá hefðu engin ný smit greinst í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×