Innlent

Þeim sem eru í fjarvinnu heima fjölgar mikið milli ára

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Margrét Helga Erlingsdóttir, fréttamaður Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, sést hér lesa fréttir á Bylgjunni heiman frá sér í apríl. Með henni á myndinni er dóttir hennar, Ísabella Ellen Jónsdóttir.
Margrét Helga Erlingsdóttir, fréttamaður Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, sést hér lesa fréttir á Bylgjunni heiman frá sér í apríl. Með henni á myndinni er dóttir hennar, Ísabella Ellen Jónsdóttir. Vísir/Vilhelm

Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs fjölgaði þeim verulega sem unnu sitt aðalstarf venjulega eð stundum í fjarvinnu heima sé miðað við síðasta ár.

Þetta kemur fram í greiningu Hagstofunnar á vinnumarkaðnum á fyrstu þremur mánuðum 2019 en trúlegt er að áhrifa kórónuveirufaraldursins gæti nokkuð í þessari aukningu.

„Á fyrsta ársfjórðungi 2020 vann að jafnaði 39,0% launafólks á aldrinum 25 til 64 ára aðalstarf sitt venjulega eða stundum í fjarvinnu heima. Þar af var launafólk sem vann aðalstarf sitt venjulega í fjarvinnu heima 5,1% en 33,3% launafólks vann stundum í fjarvinnu.

Þetta er nokkur aukning frá fyrra ári þegar 31,7% launafólks á aldrinum 25 til 64 ára sinnti í fjarvinnu heima. 4,3% gerðu venjulega og 27,4% gerðu það stundum,“ segir í tilkynningu á vef Hagstofunnar þar sem jafnframt er tekið fram að fjarvinna heima taki aðeins til vinnu sem tengist aðalstarfi einstaklinga en ekki til heimilisstarfa eða annarra starfa heima við.

Þá vinna þeir sem eru heima í fjarvinnu fleiri vinnustundir en þeir sem eru aldrei í fjarvinnu:

„Þegar vinnustundir á fyrsta ársfjórðungi eru skoðaðar sést að launafólk á aldrinum 25 til 64 ára vann 39,5 klukkustundir að jafnaði í hverri viku. Þeir sem voru eitthvað í fjarvinnu heima unnu 41,4 klukkustundir og þeir sem aldrei eru í fjarvinnu heima unnu 38,1 klukkustund.

Til samanburðar vann launafólk á aldrinum 25 til 64 ára að jafnaði 40,9 klukkustundir á fyrsta ársfjórðungi 2019 en þeir sem unnu í fjarvinnu heima 42,9 klukkustundir og þeir sem sögðust aldrei vinna fjarvinnu heima 39,7 klukkustundir.

Á fyrsta ársfjórðungi 2020 unnu launamenn, sem eitthvað vinna fjarvinnu heima, að jafnaði 9,8 klukkustundir eða 23,8% af unnum stundum. Á fyrsta ársfjórðungi 2019 vann launafólk, sem eitthvað vinnur í fjarvinnu heima, 6,7 stundir að jafnaði eða 15,9% af unnum stundum,“ segir á vef Hagstofunnar þar sem nánar má lesa um vinnumarkaðinn á fyrsta ársfjórðungi 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×