Florian Schneider, annar stofnmeðlima raftónlistarfrumkvöðlanna Kraftwerk, er látinn 73 ára að aldri.
Hann stofnaði sveitina ásamt Ralf Hütter árið 1970 og var í henni þar til ársins 2008. Hann spilaði hér á Íslandi á tónleikum Kraftwerk árið 2004, en var eins og gefur að skilja ekki viðstaddur tónleika sveitarinnar í Eldborgarsal Hörpu á Iceland Airwaves hátíðinni 2013.

Í upphafi var sveitin hluti tilraunatónlistarsenu í Vestur-Þýskalandi sem kennd er við krautrokk, en fór snemma á áttunda áratugnum að nýta sér hljóðgervla og trommuheila í auknum mæli.
Þessi rafvæðing og umbreyting hennar á tónlist sveitarinnar heyrðist skýrt á fjórðu plötu hennar Autobahn frá árinu 1974, en hún náði hæst í fimmta sæti bandaríska Billboard listans. Sveitin var ein fyrsta raftónlistarsveitin sem naut mikilla vinsælda.
Florian lék í fyrstu á blásturshljóðfæri, flautur sem hann notaði hljóðfetla og aðrar bjögunargræjur á til að framkalla óhefðbundin hljóm.
Hann færði sig svo smám saman yfir á hljóðgervla, talgervla og önnur raftónlistarhljóðfæri og henti að lokum flautunni, að eigin sögn.
Hér að neðan má heyra lagið The Robots af plötunni The Man-Machine frá árinu 1977, en lagið sömdu þeir Schneider og Hütter ásamt Karl Bartos.
Hér að neðan má svo hlusta á síðasta lagið sem Schneider gaf út. Það gerði hann árið 2015 og heitir lagið Stop Plastic Pollution.