Erlent

Nýr olíumálaráðherra sagði loftlagsumræðu áróðursbragð vinstrimanna

Kristján Már Unnarsson skrifar
Sylvi Listhaug, Erna Solberg og Terje Søviknes, sem tók við ráðherraembætti aldraðra og lýðheilsu af Sylvi, ganga úr konungshöllinni í Osló eftir ráðherraskiptin.
Sylvi Listhaug, Erna Solberg og Terje Søviknes, sem tók við ráðherraembætti aldraðra og lýðheilsu af Sylvi, ganga úr konungshöllinni í Osló eftir ráðherraskiptin. Mynd/TV-2, Noregi.

Sylvi Listhaug, einn umdeildasti stjórnmálamaður Noregs, er óvænt orðin olíu- og orkumálaráðherra. Skipan hennar þykja skilaboð um að norska ríkisstjórnin hyggist ekkert gefa eftir í leit að nýjum olíulindum. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2. 

Erna Solberg forsætisráðherra gekk af fundi Noregskonungs í vikunni með tvo nýja ráðherra sér við hlið, báða úr samstarfsflokki hennar, Framfaraflokknum, sem vildi uppstokkun á sínu ráðherraliði. Skipan Sylvi Listhaug í embætti olíu- og orkumálaráðherra vekur sérstaka athygli enda vart hægt að hugsa sér meiri ögrun við loftlagsumræðuna. 

Listhaug þykir standa yst á hægri væng stjórnmálanna og beitti sér fyrir hertri innflytjendapólitík sem ráðherra þess málaflokks. Þá neyddist hún til að segja af sér embætti dómsmálaráðherra í fyrra eftir að hún sakaði Verkamannaflokkinn um að setja réttindi hryðjuverkamanna ofar þjóðaröryggi landsins.

Frá lyklaskiptum. Sylvi Listhaug hætti sem ráðherra aldraðra- og lýðheilsu og tók við sem olíu- og orkumálaráðherra.Mynd/TV-2, Noregi.

Við lyklaskiptin, þar sem hún var þráspurð, kvaðst hún reyndar telja að einhver hluti loftlagshlýnunar væri af mannvöldum en rifjuð hafa verið upp eldri ummæli hennar um að loftlagsumræðan sé áróðursbragð vinstrimanna til að réttlæta hærri gjöld og skatta. 

Fréttaskýrendur telja að Framfaraflokkurinn vilji með skipan hennar stimpla sig inn sem aðalstuðningsflokk olíugeirans. Henni er ætlað að ræna olíustarfsmönnum frá Verkamannaflokknum og Hægriflokknum, sagði Aftenposten. Nú verður olíubrák á ný, sagði VG. Á sama tíma er hún á móti vindmylluvæðingu Noregs og sölu raforku úr landi um sæstrengi. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×