Erlent

Morales áformar fjöldafund við landamærin að Bólivíu

Kjartan Kjartansson skrifar
Morales á blaðamannafundi í Buenos Aires um miðjan desember. Hann leitaði pólitísks hælis þar.
Morales á blaðamannafundi í Buenos Aires um miðjan desember. Hann leitaði pólitísks hælis þar. Vísir/EPA

Evó Morales, fyrrverandi forseti Bólivíu, hvetur stuðningsmenn sína til að safnast saman við landamæri Bólivíu og Argentínu á milli jóla og nýárs til að velja frambjóðanda flokks hans í kosningum í byrjun næsta árs. Morales var hrakinn frá völdum eftir ásakanir um kosningasvindl í haust.

Fundur Sósíalismahreyfingar Morales á að fara fram 29. desember en í útvarpsviðtali gat hann þess ekki hvar hann yrði haldinn. Argentínskir fjölmiðlar segja að fundurinn gæti farið fram í borgunum Orán eða Salvador Mazza í Salta-héraði í Argentínu, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Morales sótti um pólitísk hæli í Argentínu eftir að hann flúði heimalandið í kjölfar kosninganna í október. Úrslit þeirra voru ómerkt vegna ásakanna um víðtæk kosningasvik. Forsetinn neyddist til að segja af sér undir stífum þrýstingi frá hernum og yfirgaf landið um miðjan nóvember.

Sérstakur kosningadómstóll á að ákveða dagsetningu nýrra kosninga fyrir 2. janúar. Þær færu þá fram innan 120 daga. Morales segir að stuðningsmenn flokks hans muni vilja nýjan frambjóðanda á fundinum í næstu viku. Argentínsk stjórnvöld hafi fallist á að sinna öryggisgæslu á fundinum.

Saksóknarar í Bólivíu gáfu út handtökuskipun á hendur Morales fyrir undirróður, hryðjuverk og fjármögnun hryðjuverka í síðustu viku. Morales hefur útilokað að hann bjóði sig fram aftur en þess í stað tilnefnt Luis Acre Catacora, fyrrverandi efnahagsráðherra, og Adronico Rodriguez, leiðtoga verkalýðsfélags kókaræktenda, sem mögulega frambjóðendur flokksins.


Tengdar fréttir

Evo Morales segir lífi sínu ógnað

Fyrrverandi forseti Bólivíu, Evo Morales, kom til Mexíkóborgar í dag og segist hann hafa sótt um hæli vegna þess að líf hans sé í húfi.

Morales biðlar til Sameinuðu þjóðanna

Evo Morales kallar eftir því að Sameinuðu þjóðirnar og kaþólska kirkjan miðli málum í Bólivíu eftir að her landsins knúði hann til þess að segja af sér sem forseti um síðustu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×