Innlent

Greiðfært á Suðausturlandi en öku­menn beðnir um að fara var­lega

Sylvía Hall skrifar
Ökumenn eru beðnir um að fara varlega frá Lómagnúpi að Jökulsárlóni.
Ökumenn eru beðnir um að fara varlega frá Lómagnúpi að Jökulsárlóni. Vegagerðin

Opnað var fyrir umferð um veginn frá Lómagnúpi að Jökulsárlóni um níu leytið í dag. Ökumenn eru þó beðnir um að fara varlega þar sem klæðning fauk af veginum á kafla við Lómagnúp.

Á Norðurlandi er enn þungfært og þæfingur eða snjóþekja á flestum leiðum. Vegurinn um Ljósavatnsskarð er því enn lokaður er stefnt er að því að taka stöðuna á ný klukkan 12 í dag. Þá er ófært um Hófaskarð og Hálsa á Norðausturlandi.

Svipað ástand er á Vestfjörðum en þar er þæfingur, snjóþekja eða hálka og skafrenningur á flestum leiðum og ófært á Klettsháls og norður í Árneshrepp. Skafrenningur og snjókoma á Steingrímsfjarðarheiði.

Vegagerðin hefur lokað fjölda vega í dag vegna veðurs. Víðast hvar er vetrarfærð og mjög víða skafrenningur og fer veður versnandi í flestum landshlutum. Flestar leiðir á Suðvesturlandi eru greiðfærar þó eitthvað sé um hálkubletti á fjallvegum. Þá er mjög hvasst undir Hafnarfjalli, á Kjalarnesi og á sunnanverðu Snæfellsnesi.

Veðurstofan hefur gefið út gula veðurviðvörun sem er í gildi allt frá Vestfjörðum og austur eftir öllu landinu til Suðvesturlands. Norðaustan hvassviðri eða stormur fer yfir landið í dag og má búast við lélegu skyggni og erfiðum akstursskilyrðum á vegum. Þó er búist við því að það taki að lægja smám saman með kvöldinu og í nótt.

Hægt er að fylgjast með nýjustu upplýsingum um færð á vegum frá Vegagerðinni hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×