Sport

Sara mjög spennt fyrir því að keppa aftur í liðakeppni eftir mótið um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Sigmundsdóttir með félögum sínum í liðinu "TeamFoodspring“ en það voru þeir Björgvin Karl Guðmundsson og Leonardo Grottino.
Sara Sigmundsdóttir með félögum sínum í liðinu "TeamFoodspring“ en það voru þeir Björgvin Karl Guðmundsson og Leonardo Grottino. Mynd/Instagram/sarasigmunds

Sara Sigmundsdóttir fagnaði enn einum sigrinum á þessu tímabili um helgina þegar var hluti af liðinu sem vann sannfærandi sigur á CrossFit mótinu Fallseries Throwdown.

Fallseries Throwdown fór fram í Mílanó og ekkert Elítuliðanna átti möguleika í tvíeykið Björgvin Karl Guðmundsson og Söru Sigmundsdóttur sem höfðu að auki mjög efnilegan Ítala, Leonardo Grottino, með sér í þriggja manna liði.

Sara gerði mótið lauslega upp á Instagram síðu sinni eins og sjá má hér fyrir neðan en þetta var síðasta mót hennar á árinu því nú taka við jólin heima á Íslandi.

Sara segist vera orðin spennt fyrir því að keppa aftur í liðakeppni eftir þetta vel heppnaða mót um helgina og það gæti jafnvel orðið að veruleika strax á þessu tímabili.







„Fyrir þessa helgi hafði liðið langur tími síðan ég keppti síðast í liðakeppni. Ég var búin að gleyma því hvað það er skemmtilegt,“ skrifaði Sara.

„Svo skemmtilegt að ég er núna að íhuga það að keppa í liðakeppni á einu löggildu CrossFit móti á þessu tímabili. Meira um það seinna,“ skrifaði Sara.

Sara hrósar líka ítalska liðsfélaganum Leonardo Grottino. „Bæði ég og Björgvin Karl vorum mjög hrifin af hráum hæfileikum hans og bæði getu hans til að læra hlutina hratt sem og að standa sig undir pressu,“ skrifaði Sara.

„Þetta er líka svo góður og auðmjúkur strákur. Ég hlakka til að fylgjast með framþróun hans í framtíðinni,“ skrifaði Sara.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×