Sport

Ellefu ára hjólabrettastelpa ætlar að verða yngsti keppandi Bretlands á Ólympíuleikum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sky Brown ætlar sér að komast á Ólympíuleikana 2020.
Sky Brown ætlar sér að komast á Ólympíuleikana 2020. vísir/getty

Sky Brown stefnir á að verða yngsti keppandi Bretlands á Ólympíuleikum frá upphafi.

Brown, sem er ellefu ára, er svo gott sem örugg með þátttökurétt í keppni á hjólabretti á Ólympíuleikunum í Tókýó á næsta ári. Það er ein fimm nýrra íþróttagreina sem keppt verður í á ÓL 2020.

Brown vinnur núna að því að fullkomna svokallaða bakhliðs 540 hreyfingu. Hún segist þó ekki æfa allan liðlangan daginn.

„Þetta tekur ekki mikinn tíma frá mér,“ sagði Brown í samtali við BBC. Hún er ekki með þjálfara en æfir með pabba sínum sem er Breti. Móðir hennar er japönsk en Brown fæddist í Miyazaki í Japan 2008.

Brown er mjög fjölhæf en hún fer einnig reglulega á brimbretti og þykir fær dansari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×