Forráðamenn MLB-deildarinnar í hafnabolta tilkynntu í gær breytingar á lyfjareglum deildarinnar þar sem helst vekur athygli að maríjúana er ekki lengur á bannlista.
Þessar nýju reglur taka gildi á næsta ári. Hefur verið kallað eftir þessari breytingu í talsverðan tíma.
Í nýju lyfjaprófunum verður leitað eftir ópíóðum, fentanyl, kókaíni og fleiri efnum. Í stað þess að dæma þá sem falla á slíku prófi beint í bann verður þeim hjálpað við að komast í meðferð fyrst.
Mikil neysla á ópíóðalyfjum er stórt vandamál í Bandaríkjunum sagði yfirmaður deildarinnar, Dan Halem.
„Nýja stefnan er að reyna að koma í veg fyrir neyslu með því að fræða og aðstoða. Það vonandi skilar sér í betri heilsu og öryggi leikmanna,“ sagði Halem.
Nokkrir mánuðir eru síðan leikmaður í deildinni lést vegna ofneyslu ópíóðalyfja.
