Erlent

Ætlar að skipta um lið og ganga í Repúblikanaflokkinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Þingmaðurinn Jef Van Drew.
Þingmaðurinn Jef Van Drew. AP/Mel Evans

Jeff Van Drew, þingmaður Demókrataflokksins í New Jersey, ætlar að ganga til liðs við Repúblikanaflokkinn. Van Drew þykir íhaldssamur en hann náði í fyrra kjöri í kjördæmi sem þykir hliðholt Repúblikanaflokknum. Þá hefur hann verið mjög andvígur ákæruferlinu gagnvart Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og fór á fund forsetans í dag.

Samkvæmt heimildum fjölmiðla ytra lagði þingmaðurinn til á fundi hans og Trump að hann myndi tilkynna ákvörðun sína skömmu fyrir eða eftir að fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkir tvær ákærur gegn forsetanum, eins og fastlega er búist við.



Van Drew hefur mótmælt ákæruferli fulltrúadeildarinnar og segir ferlið reka fleig á milli Bandaríkjamanna. Þar að auki sé of stutt í næstu forsetakosningar, sem fara fram á næsta ári. Hann var einn tveggja þingmanna Demókrataflokksins sem greiddu atkvæði gegn ákærunum.

Breytingin virðist þó ekki eingöngu vera til komin vegna hugmyndafræði þingmannsins.

Andstaða Van Drew við ákæruferlið gegn Trump hafði gert hann verulega óvinsælan meðal kjósenda Demókrataflokksins í kjördæmi hans. Blaðamenn Washington Post komu höndum yfir minnisblað úr búðum hans sem fjallaði um könnun sem gerð var fyrr í mánuðinum. Niðurstöður hennar sýndu að einungis 24 prósent kjósenda töldu að Van Drew ætti að ná endurkjöri á næsta ári og að 58 prósent vildu að annar færi í framboð fyrir flokkinn í kjördæminu.



Væntanleg flokkaskipti Van Drew hafa verið til umræðu í Washington síðustu daga og á þriðjudaginn þvertók hann fyrir að hann ætlaði sér að ganga til liðs við Repúblikanaflokkinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×