Forstjóri Icelandair segist fastlega gera ráð fyrir að MAX-vélarnar fljúgi á ný í maímánuði í vor og jafnvel fyrr. Icelandair er þó viðbúið því að vélarnar nýtist ekkert í sumaráætlun félagsins.
Gengi hlutabréfa Icelandair lækkaði um 3,3 prósent í dag eftir nýjustu fréttir af Möxunum. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2.
Boeing 737 MAX-þoturnar hafa nú sætt flugbanni um allan heim í níu mánuði. Icelandair fékk þó undanþágu í október til að forða sínum vélum frá íslenskum vetri með því að fljúga þeim til Spánar.

Ákvörðun Boeing-verksmiðjanna í gær um að stöðva tímabundið framleiðslu þeirra í næsta mánuði hefur enn aukið á óvissu um endurkomu þeirra. Icelandair brást við með tilkynningu í dag um að félagið búist ekki við þeim fyrr en í maí en sé jafnframt viðbúið frekari kyrrsetningu.
-Þannig að þið búið ykkur allt eins undir það að Maxarnir komi hreinlega ekkert í sumaráætlunina?
„Nei, við gerum fastlega ráð fyrir því að vélarnar verði farnar að fljúga hjá okkur í síðasta lagi í maí, - jafnvel fyrr,“ svarar Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
„En samt sem áður verðum við að undirbúa okkur fyrir aðrar sviðsmyndir líka. Þannig að við gerum það. En við teljum að vélarnar verði farnar að fljúga í maí í síðasta lagi og jafnvel fyrr, eins og ég sagði áðan.“

Til að mæta fjarveru Maxanna hefur Icelandair leigt tvær Boeing 737-800 NG og gerir ráð fyrir að bæta þriðju leiguvélinni við. En geta flugmenn Icelandair farið beint yfir á þær eða þurfa þeir sérstaka þjálfun?
„Þeir þurfa einhverja þjálfun. En við gerum ráð fyrir að okkar áhafnir séu að fljúga þessum vélum, sem er mjög gott. En það þarf einhverja þjálfun.“
Icelandair hefur í tvígang gert bráðabirgðasamkomulag við Boeing um bætur vegna kyrrsetningarinnar.
„Við höfum þegar fengið ákveðinn hluta tjónsins bætt og erum áfram í viðræðum við Boeing um að fá í raun allt bætt. Og við verðum að sjá hvernig það fer. En það er okkar markmið að fá tjónið bætt frá flugvélaframleiðandanum,“ segir forstjóri Icelandair.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: