Erlent

20 mínútna hreyfing á dag stórminnkar líkur á blöðruhálskrabbameini

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Blöðruhálskirtilskrabbamein er algengasta krabbameinið sem karlmenn glíma við á Íslandi.
Blöðruhálskirtilskrabbamein er algengasta krabbameinið sem karlmenn glíma við á Íslandi. Getty/James Benet

Tuttugu mínútna hreyfing á dag getur minnkað líkur á því að karlmenn þrói með sér krabbamein í blöðruhálskirtli um 51 prósent samkvæmt nýrri breskri rannsókn. Aldrei of seint að byrja að hreyfa sig segir doktor í lýðheilsu og sérfræðingur í fræðslu og forvörnum hjá Krabbameinsfélaginu um rannsóknina.

Fjallað var um rannsóknina í Reykjavík síðdegis í dag en hún birtist fyrr í mánuðinum í International Journal of Epidemiology, alþjóðlegu fræðitímariti faraldsfræðinga. Jóhanna Eyrún Torfadóttir doktor í lýðheilsu og sérfræðingur í fræðslu og forvörnum hjá Krabbameinsfélaginu var fengin til að ræða rannsóknina.

„Þeir eru að sérstaklega skoða þá sem hreyfa sig mikið á móti þeim sem hreyfa sig mjög lítið,“ sagði Jóhanna. Niðurstöðurnar væru þær að þeir sem eru í hópnum sem hreyfa sig mikið minnka líkurnar á því að fá blöðruhálskrabbamein, algengasta krabbamein í körlum á Íslandi, um 51 prósent. 

Svo virðist sem að ekki þurfi mjög mikla hreyfingu til.

„Þetta eru karlar á miðjum aldri og hreyfing. Þú þarft ekki að vera maraþonhlaupari. Þetta er svona ca. 20 mínútur á dag. Bara að ganga, þessi hóflega hreyfing sem er bara mælt með,“ segir Jóhanna.

Aðspurð um hvað það væri við hreyfinguna sem gæti haft þessi áhrif sagði Jóhanna að ýmsir þættir kæmu til.

„Til dæmis það að það eru minni bólgur í líkamanum ef við hreyfum okkur reglulega,“ sagði hún. „Svo hefur þetta þessu óbeinu áhrif á þyngdina okkar. Það hefur verið það eiginleg það eina lífstílstengda sem hefur verið tengd við krabbamein í blöðruhálskirtli, er einmitt að vera of þungur.“

Hafa verður þó í huga að tuttugu mínútna hreyfing gulltryggi ekki að karlmenn geti verið óttalausir gagnvart blöðruhálskrabbameini.

„Það er aldrei þannig að við getum sagt að ef þú gerir þetta þá muntu ekki krabbamein. Það eru minni líkur og þetta er alltaf rannsóknarhópur fólks. Við sjáum auðvitað líka að þeir sem eru að hreyfa sig eru líka að fá krabbamein en það eru færri í þeim hópi, mun færri,“ segir hún.

Engu að síður sýni rannsóknin að hreyfing sé af hinu góða.

„Þetta er bresk rannsókn. Þar er venjujulega einn á móti sex sem eru að fá krabbamein í blöðruhálskirtli einhvern tímann um ævina. En ef að þú værir með hóp af mönnum sem væru allir að hreyfa sig mikið þá er það einn á móti tólf.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×