Keflavík vann fjögurra stiga sigur á Breiðabliki í Domino's deild kvenna í Smáranum í dag.
Leikurinn var nokkuð jafn í upphafi og skiptust liðin á forystunni. Keflavík náði þó undirtökunum í leiknum þegar líða fór á fyrsta leikhluta og í hálfleik var staðan 36-42 fyrir gestunum af Suðurnesjunum.
Blikakonur gáfust þó ekki upp og komust þær yfir undir lok þriðja leikhluta eftir mjög jafnan fjórðung. Síðasti leikhlutinn var æsispennandi en svo fór að lokum að Keflavík vann 75-71.
Daniela Morillo var stigahæst Keflvíkinga með 32 stig. Hún átti frábæran leik og náði í þrefalda tvennu með 15 fráköst og 11 stoðsendingar.
Í liði Breiðabliks var það Danni Williams sem leiddi liðið með 31 stig og 17 fráköst.

