Erlent

Fundinn sekur um morðið á Grace Milla­ne

Atli Ísleifsson skrifar
David og Gillian Millane, foreldrar Grace, ræddu við fjölmiðla fyrir utan dómshúsið í morgun.
David og Gillian Millane, foreldrar Grace, ræddu við fjölmiðla fyrir utan dómshúsið í morgun. AP
Dómstóll í Nýja-Sjálandi dæmdi í dag mann sekan um morðið á hinni bresku Grace Millane. Málið hefur vakið mikla athygli um allan heim, en maðurinn kyrkti Millane og kom svo líkinu hennar fyrir í ferðatösku.

Lík Millane fannst grafið í kjarri skammt frá Auckland um viku eftir að hún hvarf.

Réttarhöldin stóðu í tvær vikur og hélt hinn dæmdi, sem er 27 ára, því fram að hann hafi orðið henni að bana í „harkalegu kynlífi“.

Sjá einnig:Skildi líkið eftir í ferða­tösku og fór á annað Tinder-stefnu­mót

BBC segir frá því að foreldrar Millane, David og Gillian, hafi brostið í grát þegar kviðdómendur tilkynntu að hinn ákærði hafi verið fundinn sekur. Hann sýndi engar tilfinningar þegar dómur var lesinn upp, en niðurstaða náðist eftir um fimm tíma umhugsunartíma kviðdómenda. Dómarinn greindi svo frá því að refsing yrði ákvörðuð þann 21. febrúar á næsta ári.

Að neðan má sjá myndir úr dómsal í morgun.

Millane-hjónin höfðu flogið sérstaklega til Nýja-Sjálands vegna réttarhaldanna og sögðu við fjölmiðla að fjölskylda og vinir Millane myndu fagna niðurstöðunni. Hafi líf fjölskyldunnar verið eyðilagt vegna hins „villimannslega“ morðs á dótturinni. „Grace var sólskin okkar og hennar verður saknað að eilífu,“ sagði faðir Grace.

Grace Millane var frá Essex í Bretlandi og var á bakpokaferðalagi um heiminn og kynntist morðingja sínum í gegnum stefnumótaforritið Tinder þann 1. desember síðastliðinn, daginn áður en hún myndi fagna 22 ára afmæli sínu. Vörðu þau nokkrum klukkustundum saman þar sem þau fengu sér kokteila áður en þau héldu á hótelherbergi mannsins.

Sjá einnig:Óttaðist að deyja í kynlífi með manninum

Lík Millane fannst í Waitākere-fjallgarðinum um viku síðar. Leiddi réttarkrufning í ljós að þrengt hafi verið að öndunarveg hennar.

Málið vakti gríðarlega athygli í Nýja-Sjálandi þar sem Jacinda Ardern forsætisráðherra bað fjölskyldu Millane sérstaklega afsökunar.

Að neðan má sjá foreldra Grace Millane þar sem þau bregðast við dómnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×