Lífið - Stórskemmtilegt drullumall! og á Eigin fótum hefur verið boðið að sýna á heimsþingi Assitej í Japan á næsta ári. Assitej eru heimssamtök barnaleikhúss og halda samtökin árlegt heimsþing sem er stærsta barnaleikhúshátíð í heimi. Þangað koma áhorfendur og leikhúsfólk hvaðanæva úr heiminum til að sjá það besta hverju sinni í barnaleikhúsi. Alls komu 1.400 sýningar til greina og íslensku sýningunum er því sýndur mikill heiður.
Í framhaldinu verður Lífið sýnt á Ricca Ricca hátíðinni á japönsku eyjunni Okinawa sem er tengd við heimsþingið. Fyrirhugað er að sýna á eigin fótum í Okinawa og Kýótó sem og Tókýó þar sem heimsþingið er.
Lífið – Stórskemmtilegt drullumall! er verðlaunaleikrit, samið og flutt af leikhópnum 10 fingur. Sýningin er án orða, dansar á mörkum leikhúss og myndlistar. Lífið fjallar um sköpunarkraft, vináttu og hringrás lífsins.
Á eigin fótum er brúðusýning án orða með frumsaminni tónlist. Þar er fjallað um Ninnu, sex ára uppátækjasama stelpu sem býr í Reykjavík á millistríðsárunum og er send ein í afskekkta sveit sumarlangt. Umhverfi Ninnu er töfrum gætt og öðlast hversdagslegir hlutir líf og nýtt hlutverk í sýningunni.
Menning