Innlent

Vildi biðja kærustunnar í fangageymslu

Sylvía Hall skrifar
Þrátt fyrir að beiðni ferðamannsins þótti áhugaverð varð honum ekki að ósk sinni.
Þrátt fyrir að beiðni ferðamannsins þótti áhugaverð varð honum ekki að ósk sinni. Fréttablaðið/GVA
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst heldur óvenjuleg beiðni nýlega þegar erlendur ferðamaður leitaði til embættisins í þeirri von um að fá aðgang að fangageymslu. Ætlaði hann að biðja kærustu sinnar í geymslu á meðan á ferðalagi þeirra hér á landi stóð.

Í færslu lögreglunnar á Facebook kemur fram að hugmyndin hafi ekki verið fullmótuð en eitt var ljóst að hann vildi bera upp bónorðið í fangageymslunni. Þrátt fyrir það virtist hvorki ferðamaðurinn né kærastan eiga sér nokkra sögu tengda fangelsisvist heldur hafi hugmyndin komið til eftir að ferðamaðurinn skoðaði Instagram-síðu lögreglunnar.

Beiðni ferðamannsins var hafnað eftir efnislega meðferð hjá embættinu, enda starfsemi þar nokkuð viðkvæm og efaðist embættið um að aðstæður væru svo rómantískar að þær væru góður vettvangur fyrir bónorð. Var ferðamanninum þó óskað velgengni en ekki er vitað hvort hann hafi fundið heppilegri vettvang fyrir stóru stundina og þá hvort kærastan hafi svarað játandi.

„Lögreglan vonar samt að það hafi verið raunin og að málið hafi fengið farsælan endir,“ segir í færslu lögreglu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×