Erlent

Metfjöldi hefur greitt atkvæði í kosningunum í Hong Kong

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Langar raðir hafa myndast við kjörstaði í Hong Kong í  dag.
Langar raðir hafa myndast við kjörstaði í Hong Kong í dag. AP
Metfjöldi hefur þegar greitt atkvæði í kosningum til héraðsstjórnar sem fara fram í Hong Kong í dag. Um hádegi að staðartíma í dag höfðu þegar fleiri greitt atkvæði en í síðustu kosningum 2015.

Litið er á kosningarnar sem ákveðinn prófsteinn hvað varðar stuðning við Carrie Lam, æðsta leiðtoga Hong Kong. Mótmælendur sem barist hafa fyrir lýðræðisumbótum vonast til þess að senda kínverskum stjórnvöldum skýr skilaboð nú þegar mótmæli hafa staðið yfir í um fimm mánuði í Hong Kong.

Langar raðir mynduðust við kjörstaði strax í morgun en óttast hefur verið að kjörstöðum kynni að verða lokað ef átök myndu brjótast út. Skipuleggjendur mótmælanna höfðu hvatt mótmælendur til að halda friðinn á kjördag til að koma í veg fyrir það, en til þessa hafa kosningarnar farið friðsamlega fram að því er BBC greinir frá. Ríflega fjórar milljónir íbúa hafa skráð sig til þátttöku í kosningunum, sem er þónokkuð meira en helmingur íbúa Hong Kong. Yfir 400 fulltrúar verða kjörnir í hérðasstjórn. Lýðræðisumbótasinnar vonast til þess að fjölga fulltrúum úr sínum röðum í héraðsstjórn, sem getur haft nokkur áhrif við val á æðsta leiðtoga Hong Kong.

Kjörstaðir opnuðu klukkan hálf átta að staðartíma en síðdegis höfðu þegar yfir 2,1 milljón greitt atkvæði en í síðustu kosningum höfðu 1,5 milljónir greitt atkvæði þegar kjörstöðum var lokað. Sem stendur þykir líklegt að frambjóðendur sem hliðhollir eru stjórnvöldum í Peking haldi meirihluta. Yfir þúsund eru í framboði og keppast þeir um 452 sæti í héraðsstjórninni. Þar að auki er kosið í 27 landsbyggðarsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×