Erlent

Sextán hið minnsta látnir eftir skjálftann í Albaníu

Atli Ísleifsson skrifar
Skjálftinn er öflugasti í landinu frá 1979 þegar skjálfti að stoð 6,9 reið yfir.
Skjálftinn er öflugasti í landinu frá 1979 þegar skjálfti að stoð 6,9 reið yfir. AP
Að minnsta kosti sextán eru látnir og rúmlega sex hundruð hafa verið flutt á sjúkrahús eftir skjálftann sem reið yfir Albaníu í nótt. Fjölmargar byggingar eyðilögðust í skjálftanum sem mældist 6,4 og átti upptök sín á tíu kílómetra dýpi, um 34 kílómetrum norðvestur af höfuðborginni Tírana.

Nokkrum klukkustundum síðar reið annar öflugur skjálfti, 5,2 að stærð, yfir nærri borginni Mostar í Bosníu og Hersegóvínu. Engar fréttir hafa þó borist þaðan af manntjóni.

Skjálfti næturinnar í Albaníu er sá stærsti til að ríða yfir á Balkanskaga í áratugi.

Erlendir fjölmiðlar segja að í hópi hinna látnu sé maður á sextugsaldri sem hafi stokkið út úr byggingu í miðjum skjálftanum. Þá hafi nokkrir látið lífið þegar byggingar hrundu í strandbænum Durres og í bænum Thuman.

Björgunarlið er enn að störfum víða í landinu þar sem verið er að leita einhverra sem er saknað.

Ilir Meta Albaníuforseti segir ástandið alvarlegt og hvatti ríkisstjórnina til að biðla til alþjóðasamfélagsins um aðstoð. Björgunarteymi hefur þegar varið sent frá nágrannaríkinu Kósovó, Grikklandi, Ítalíu, Tyrklandi, Svartfjallalandi, Rúmeníu og Serbíu og hafa Evrópusambandið og Bandaríkin boðið fram aðstoð.

Herinn hefur sömuleiðis verið kallaður út til að aðstoða við að koma upp neyðarskýlum á hamfarasvæðunum.

Skjálftinn er öflugasti í landinu frá 1979 þegar skjálfti að stoð 6,9 reið yfir. Þá létu 136 lífið og á annað þúsund slösuðust.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Öflugur jarðskjálfti í Albaníu

Öflugur jarðskjálfti reið yfir Albaníu í morgun með þeim afleiðingum að minnst sex eru látnir og að minnsta kosti 300 slasaðir. Óttast er að tala látinna muni hækka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×