Sport

Þre­faldur heims­­meistari í snóker hatar í­­þróttina og spilar frekar golf

Anton Ingi Leifsson skrifar
Mark Williams er hreinskilinn.
Mark Williams er hreinskilinn. vísir/getty

Mark Williams, sem hefur orðið heimsmeistari í snóker í þrígang, er ekki mikill aðdáandi íþróttarinnar en hann segist hata íþróttina.



Williams komst áfram í 2. umferð enska meistaramótsins í snóker í gær, sem fer fram í York, með 6-2 sigri á Skotanum Fraser Patrick.



„Ég lenti í miklum vandræðum en einhvern veginn lenti hann í meiri vandræðum en ég og gerði þetta auðvelt fyrir mig í nokkrum römmum,“ sagði Wales-verjinn.



Williams, sem vann þriðja heimsmeistaratitil sinn í maí á síðasta ári, hefur ekki verið upp á sitt besta og spurður út í tímabilið svaraði Williams:



„Þetta gengur ágætlega. Mér líður vel þegar ég er á golfvellinum,“ en hvað með snókerinn?



„Ég hata það. Ég nýt þess bara að spila golf.“



Það er ljóst að Williams kemur til dyranna eins og hann er klæddur en aðspurður út í næstu umferð lá hann ekki á svörum.



„Ég verð í vandræðum. Ég hef engar væntingar. Ef ég spila eins og þetta í næstu umferð þá tapa ég og verð kominn heim á sunnudag eða mánudag,“ sagði Williams.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×