Lífið

Átti ekki hælaskó og farðaði sig þrisvar á ári

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Birta Abiba Þórhallsdóttir er spennt fyrir því að vera fulltrúi Íslands í Miss Universe í næstu viku.
Birta Abiba Þórhallsdóttir er spennt fyrir því að vera fulltrúi Íslands í Miss Universe í næstu viku. Aðsend mynd
Birta Abiba Þórhallsdóttir keppir þann 8. desember næstkomandi í Miss Universe fyrir Íslands hönd. Síðustu vikur hefur Birta verið að undirbúa sig „bæði andlega og líkamlega“ fyrir Miss Universe keppnina. Hún var stödd í Miami þegar Vísir náði tali af henni en hún flýgur í dag til Atlanta þar sem keppnin er haldin í næstu viku.

„Undirbúningurinn hefur gengið frábærlega ef tekið er tillit til þess að fyrir ári síðan átti ég ekki eitt par af hælaskóm og málaði mig kannski þrisvar á ári.“

Birta segir að hún sé ósköp venjuleg tvítug íslensk stelpa frá Mosó. Hún elskar að skrifa, hanga með fjölskyldu sinni og að fara upp í sveit. Í Miss Universe er engin netkosning svo álit dómnefndar ræður öllu í keppninni.

„Líkt og í keppninni heima þá byrjar hún með sundfata eða bikiní keppni svo kvöldkjóla. Síðan er skorið niður og frá þeim punkt eru stelpurnar að segja frá sér, svara spurningum og tala um það sem skiptir þær mestu máli. Ég myndi skilgreina þessa keppni sem vettvang fyrir ungar konur til að geta farið með á framfæri, málefni sem þeim þykir mikilvæg. Þar sem mikill áhersla er lögð á menntun, góðgerðarvinnu og að vera góð fyrirmynd.“

Birta flýgur til Atlanta í dag.Facebook/Miss Universe Iceland

Mikilvægt að standa með sjálfri sér

Birta hefur frá unga aldri upplifað fordóma, uppnefni, stríðni og jafnvel ofbeldi vegna húðlitar.

„Mitt markmið hefur alltaf verið að verða einskonar fyrirmynd fyrir aðrar stúlkur af blönduðum uppruna, eins og ég hefði viljað hafa þegar ég var yngri.“

Manuela Ósk Harðardóttir er eigandi og framkvæmdastjóri Miss Universe keppninnar á Íslandi og segir Birta að stuðningur hennar hafi verið afar dýrmætur í þessu ferli.

„Ég segi alltaf að ég væri fiskur á þurru landi án Manuelu þar sem hún hefur alltaf verið til staðar fyrir mig.“

Birta segir að hún sé mjög heppin og hafi fengið mikinn stuðning frá fjölskyldu og vinum í kringum keppnina hér á landi og einnig hafi hún fundið fyrir mikilli ást frá ókunnugum. Ferlið hefur verið mjög lærdómsríkt. 

„Ég hef lært hversu mikilvægt það er að standa með sjálfri þér. Gefast aldrei upp og lifa lífinu lifandi.“

Hún segir að það erfiðasta við þessa keppni hafi verið að byrja að ganga á hælaskóm því fætur hennar hafi alls ekki verið vanir því. Það besta séu svo öll ferðalögin og allt fólkið sem hún hefur kynnst.

„Ég vona að ungt fólk viti að þau eru nóg, sama hvernig þau líta út og þau geta allt sem þau ætlar sér,“ segir Birta að lokum.

Aðsend mynd
Birta var í einlægu viðtali í Einkalífinu á Vísi í síðasta mánuði og má sjá viðtalið í spilaranum hér fyrir neðan. Í viðtalinu ræðir Birta um barnæskuna, fordómana, drauma sína og Miss Universe keppnina.


Tengdar fréttir

Upplifði mikið sjálfshatur í æsku

„Þetta hefur mótað mig að þeirri manneskju sem ég er í dag og kenndi mér mikilvæga lexíu,“ segir Birta Abiba Þórhallsdóttir, Miss Universe Iceland, sem er gestur Einkalífsins í þessari viku.

Enginn beðið mig afsökunar

"Þú þarft ekki að svara þessu en ég vildi bara segja þér að ég er ekki að fara kjósa þig. Ég ekki að reyna vera dónaleg en mér finnst bara kjánalegt að þú sért að taka þátt í keppni fyrir íslenskar stelpur!“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×