Fótbolti

Ísland eina liðið sem hefur unnið Tyrki síðan að þjálfarinn tók við

Óskar Ófeigur Jónsson í Antalya skrifar
Senol Günes á blaðamannfundi.
Senol Günes á blaðamannfundi. Getty/Orhan Cicek
Tyrkir eru að gera frábæra hluti í undankeppni EM og það er kannski ekkert skrýtið ef við skoðum það hver er að þjálfa liðið en það er sannkölluð lifandi goðsögn.

Tyrkir taka á móti Íslendingum í Istanbul á fimmtudagskvöldið þar sem íslensku strákarnir verða að vinna ætli þeir sér upp úr riðlinum.

Senol Günes er merkilegur þjálfari í knattspyrnusögu Tyrkja því hann er sá landsliðsþjálfari sem bjó til besta landslið Tyrkja hingað til.

Senol Günes tók við tyrkneska landsliðinu í ágústmánuði árið 2000, þá 48 ára gamall, og undir hans stjórn komust Tyrkir á HM í Japan og Suður-Kóreu. Þar sló liðið í gegn, fór alla leið í undanúrslit og vann brons eftir 3-2 sigur á Suður-Kóreu í leiknum um þriðja sætið.

Günes hætti með landsliðið þegar Tyrkjum mistókst að komast á EM 2004 en tók aftur við liðinu eftir ófarir þess í Þjóðadeildinni á síðasta ári.

Það er óhætt að segja að tyrkneska landsliðið hafi tekið stakkaskiptum eftir að Senol Günes settist aftur í þjálfarastólinn.

Liðið hefur unnið átta af fyrstu tíu leikjunum og tekið fjögur stig út úr tveimur leikjum á móti heimsmeisturum Frakka. Eina tapið kom aftur á móti Íslandi á Laugardalsvellinum í júní.

Ísland er nefnilega eina liðið sem hefur unnið Tyrki síðan að Senol Günes tók við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×