Önnur umræða um fjárlög næsta árs hófst á Alþingi í dag. Með breytingum sínum á frumvarpinu leggur meirihluti fjárlaganefndar til heildartekjur ríkissjóðs lækki um 10,2 milljarða króna.

Dæmi um gjöld sem lækka er að fjárþörf í nýbyggingu Landspítala lækki um 3,5 milljarða, vaxtagjöld um rúman 1,3 milljarða og fjárheimildir til málaflokka og sviða lækki um 547 milljónir. Í heild leiði breyting á tekjum og gjöldum til 9,7 milljarða halla á fjárlögum sem hafa verið afgreidd hallalaus frá árinu 2013.

„Við þær kringumstæður sem við búum við í hagkerfinu er afar mikilvægt að setja aukinn kraft í opinbera fjárfestingu. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir fjárfestingu upp á liðlega 72 milljarða króna sem er tvöföldun frá árinu 2017,“ segir Willum Þór.
Stjórnarandstæðingar gera ýmsar athugasemdir við breytingatillögur meirihlutans. Ágúst Ólafur Ágústsson fulltrúi Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd sagði veiðigjöldin ekki einu sinni standa undir kostnaði við rannsóknir og eftirlit í greininni.
„Það er sláandi staðreynd að upphæð veiðileyfagjalds hefur lækkað um meira en helming síðan þessi ríkisstjórn tók við. Og það er hin pólitíska spurning,“ sagði Ágúst Ólafur.
Samfylkingin leggur til hækkun útgjalda og tekna og tilfæringar upp á 20 milljarða króna og Miðflokkurinn upp á 4,7 milljarða.
Þorsteinn Víglundsson varaformaður Viðreisnar sagði ríkisstjórnina tefla á tæpasta varð. Lítið væri eftir af svigrúmi ríkissjóðs til að bregðast við óvæntum uppákomum.
„Á síðasta ári afgreiddum við hér fjárlög sem áætluð voru með 28 milljarða afgangi. Eða 1% af landsframleiðslu. Nú stefnir í að afkoma ríkisins verði að minnsta kosti í halla upp á hálft prósent af landsframleiðslu þetta árið og eru ekki öll kurl komin til grafar þar enn þá,“ sagði Þorsteinn.