Fótbolti

Tyrkir spila á þessum velli í fyrsta sinn í næstum því fimm ár

Óskar Ófeigur Jónsson í Antalya skrifar
Stuðningsmenn Galatasaray búa alltaf til svakalega stemmningu á Turk Telekom leikvanginum.
Stuðningsmenn Galatasaray búa alltaf til svakalega stemmningu á Turk Telekom leikvanginum. Getty/Emrah Yorulmaz/
Türk Telekom Arena í Istanbul ætti að öllu eðlilegu að vera einn besti heimavöllur í heimi enda fá lið sem fá háværari og meiri stuðning en heimaliðin á þessum velli.

Hvort sem Tyrkir hafa verið að spara þennan völl eða ekki þá tóku þeir þá ákvörðun að enda næstum því fimm ára "útlegð" Türk Telekom Arena og spila leikinn mikilvæga á móti Íslandi á vellinum.

Tyrkir hafa ekki spilað landsleik á vellinum síðan 17. nóvember 2014 og vantar því aðeins nokkra daga upp að biðin nái fimm árum. Tyrkir unnu 3-1 sigur á Kasakstan í síðasta leik sínum á vellinum en alls hafa þeir spilað sjö heimaleiki á vellinum síðan hann var tekinn í norkun árið 2011.

Türk Telekom Arena er heimavöllur en hingað til í þessari undankeppni hafa Tyrkir spilað heimaleiki sína á heimavöllum liðanna Eskisehirspor (Moldóva), Konyaspor (Frakkland), Besiktas (Andorra) og Fenerbahce (Albanía). Það var því væntanlega komið að heimavelli Galatasaray að þessu sinni.

Heimavöllur Galatasaray hefur ekki verið notaður í allan þennan tíma en tæplega 28 þúsund manns létu sjá sig á leiknum við Kasakstan árið 2014. Metið í landsleik Tyrkja á vellinum er aftur á móti síðan í leik á móti Þýskalandi í október 2011. Þá mættu 49.532 á leikinn og sá Þjóðverja vinna 3-1 sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×