Fótbolti

Íslenska landsliðið lendir í Istanbul eftir hádegi

Óskar Ófeigur Jónsson í Antalya skrifar
Bosporus er sundið sem skiptir Istanbul borg á milli Evrópu og Asíu en það tengir líka Svartahaf við Marmarahaf.
Bosporus er sundið sem skiptir Istanbul borg á milli Evrópu og Asíu en það tengir líka Svartahaf við Marmarahaf. Getty/Muhammed Enes Yildirim
Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu lendir í Istanbul rúmum þremur tímum fyrir einu æfingu sína á Türk Telekom leikvanginum.

Íslenska landsliðið mætir Tyrkjum í Istanbul í undankeppni EM 2020 annað kvöld en fyrstu dögunum í Tyrklandi hefur íslenska liðið verið í nokkra daga æfingabúðum í ferðamannaparadís á tyrknesku ríveríunni.

Íslenski hópurinn flýgur frá æfingabúðum sínum á suðurströndinni og til Istanbul í hádeginu að staðartíma en Tyrkland er þremur tímum á undan Íslandi. Strákarnir ættu að lenda á glænýjum flugvelli í Istanbul um klukkan ellefu að íslenskum tíma.

Knattspyrnusambandið sendi þó einn mann á undan sér til Istanbul. Þorgrímur Þráinsson fékk að venju það hlutverk að fara á undan liðinu til að gera allt klára á hóteli liðsins. Þorgrímur flaug til Istanbul í gær.

Flugið frá Antalya til Istanbul tekur bara klukkutíma og áætlað er að liðið lendi um klukkan 14.00 að staðartíma. Liðið fær ekki langan tíma til að koma sér fyrir á hótelinu því fram undan er æfing á keppnisvellinum sem hefst klukkan 17.30.

Tyrkir hættu við að vera með sína æfingu á morgun á keppnisvellinum en þeir áttu að vera með æfinguna sína strax á eftir íslenska landsliðinu. Tyrkir ætla þess í stað að vera með lokaæfingu sína fyrir leikinn á æfingasvæði sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×