Fótbolti

Íslenski miðvörðurinn með 67 prósent markanna sem Tyrkir hafa fengið á sig

Óskar Ófeigur Jónsson í Antalya skrifar
Ragnar Sigurðsson í leiknum á móti Tyrkjum á Laugardalsvellinum í júní.
Ragnar Sigurðsson í leiknum á móti Tyrkjum á Laugardalsvellinum í júní. Getty/Oliver Hardt
Tyrkir hafa aðeins fengið á sig þrjú mörk samanlagt í fyrstu átta leikjum sínum í undankeppni EM 2020.

Ragnar Sigurðsson, miðvörður íslenska landsliðsins, er með tvö af þessum þremur mörkum eða 67 prósent þeirra.

Það má búast við því að maður verði settur til höfuðs Ragnars í föstum leikatriðum í leiknum á fimmtudaginn.

Sá eini sem hefur skorað hjá Tyrkjum í þessari undankeppni er Frakkinn Olivier Giroud. Hann skoraði markið sitt líkt og Ragnar, eftir fast leikatriðí.

Olivier Giroud skallaði boltann í markið eftir hornspyrnu alveg eins og Ragnar gerði í seinna marki sínu. Fyrra mark Ragnars kom eftir aukaspyrnu.

Frá seinna marki Ragnars þar til að Olivier Giroud skoraði hjá Tyrkjum í síðasta leik þá léku Tyrkir í 404 mínútur án þess að fá á sig mark í undankeppninni.

Mörk Ragnars í Laugardalnum í júní komu bæði í fyrri hálfleiknum og hann kom íslenska liðinu í 2-0.

Fyrra markið kom á 21. mínútu þar sem aukaspyrna Jó­hanns Berg Guðmunds­sonar skoppaði á teignum og barst til Ragnars sem skallaði boltann í markið úr markteignun.

Seinna mark Ragnars kom á 32. mínútu en Birkir Bjarnason skallaði þá áfram hornspyrnu Gylfa Þórs Sigurðssonar og Ragnar var mættur á fjærstöngina til að skalla boltann inn af stuttu færi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×